Skíðamót Íslands verður haldið í Hlíðarfjalli á Akureyri um helgina, dagana 29. mars til 1. apríl, þar sem keppt verður í alpagreinum og skíðagöngu. Allt fremsta skíðafólk landsins verður á meðal keppenda en um hundrað keppendur verða á mótinu frá tíu félögum. Þá mun fremsti skíðamaður Íslands til margra ára, Dalvíkingurinn Björgvin Björgvinsson, keppa á sínu fyrsta móti í vetur. Veðurspáin lítur ágætlega út fyrir helgina og segir Þórunn Sif Harðardóttir, framkvæmdarstjóri SKÍ, að nægur snjór sé í fjallinu þrátt fyrir hlýindakafla undanfarna daga.
Við erum nokkuð örugg með snjóinn á meðan spáin helst eins og hún er og erum bjartsýn á gott mót, sagði Þórunn. Mótið hefst kl. 17:30 í dag, fimmtudag, með sprettgöngu kvenna og karla í frjálsri aðferð en mótsetning verður í Brekkuskóla kl. 20:00 í kvöld. Mótinu lýkur með verðlaunaafhendingu í Hlíðarfjalli um miðjan dag á sunnudag.