Skíðagöngubrautin í Hlíðarfjalli opnuð
Nú hefur snjóað þónokkuð í Hlíðarfjalli og í morgun var skíðagöngubrautin opnuð. Troðinn hefur verið 3,5 km hringur og verða ljósin látin loga yfir brautinni til kl. 22 á kvöldin. Að sögn Guðmundar Karls Jónssonar, forstöðumanns skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli, er varla útlit fyrir að svigbrautirnar verði opnaðar á næstu dögum en þess verður þó varla langt að bíða.
Guðmundur vonast til að fólk verði duglegt að nýta sér upplýsta gönguskíðabrautina. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.