Skerðing á starfsemi Húsavíkur- flugvallar verði dregin til baka

Félagsfundur Framsýnar- stéttarfélags skorar á Flugstoðir ohf. að draga þegar í stað til baka ákvarðanir um að skerða verulega starfsemi Húsavíkurflugvallar.  Boðaðar breytingar þýða nánast lokun flugvallarins. Húsavíkurflugvöllur gegnir mikilvægu hlutverki í öryggismálum Þingeyinga varðandi sjúkraflug og þá hefur ferðaþjónustan á svæðinu treyst á leiguflug um völlinn.  

Á sama tíma og stjórnvöld krefja stjórnendur Heilbrigðisstofnunnar Þingeyinga um að skera niður kostnað við rekstur stofnunarinnar, er furðulegt að sömu yfirvöld ætli að loka á þann möguleika að hægt verði að senda sjúklinga með sjúkraflugi á hátæknisjúkrahús. Ríkisfyrirtækið Flugstoðir og Samgöngumálaráðherra sem fara með þessi mál skulu hafa það í huga að Þingeyingar eru ekki annars flokks fólk og láta því ekki bjóða sér hvað sem er. Þá er full ástæða til að gagnrýna vinnubrögðin sem viðhöfð voru við ákvarðanatökuna þar sem lítið sem ekkert samráð var haft við heimamenn í þessu mikilvæga máli, segir ennfremur í ályktun Framsýnar.

Nýjast