Skens & skot á götuhorninu
Skens & skot á götuhorninu er nýr liður hér á dagskrain.is. Um er að ræða það besta úr liðnum „Á götuhorninu“ úr Vikudegi vikunnar og liðnum „Skens & skot“ úr Skarpi vikunnar.
Morgunblaðið búið að stimpla sig út
Fjör færist í baráttuna um forsetastólinn enda styttist óðum í kosningar. Davíð Oddsson hefur komið í stutta heimsókn til Akureyrar og í vikunni opnaði stuðningsfólk Guðna Th. kosningaskrifstofu hér í bæ. Þessir tveir eru líklegastir til að bítast um Bessastaði. Guðni mælist með ágætis forskot og þrátt fyrir að Davíð hafi heilan fjölmiðil á bak við sig, Morgunblaðið, stendur fylgi Guðna nánast óhaggað. Undirritaður er áskrifandi að Mogganum og er það verulega kjánalegt hvernig blaðið beitir sér gegn Guðna. Ritstjórapistlar eins og leiðarinn, og þá sérstaklega Staksteinarnir í blaðinu, gera í því að setja út á Guðna og hylla Davíð. Svona svipað og höfundar Staksteinanna hafa hampað ríkisstjórninni með Sjálfstæðismenn við völd en hjólað duglega í stjórnarandstöðuna. Morgunblaðið er fyrir löngu búið að stimpla sig út sem trúverðugur miðill í kosningabaráttunni. Steinin tók úr þegar Morgublaðinu var dreift frítt í hús um allt land og stór frétt um Guðna í blaðinu þar sem hann var talaður niður.
- Vikudagur, 2. júní
Bjóða Húsvíkingar góðum gestum upp á vænan skjálfta?
Fjöldi jarðvísindamanna er á Húsavík þessa dagana vegna ráðstefnu um jarðskjálfta og jarðváreftirlit sem hér er haldin. Að sjálfsögðu er Páll Einarsson, prófessor og jarðeðlisfræðingur, í þeirra hópi enda manna fróðastur hérlendis um ráðstefnuefnið og hefur m.a. lengi varða við byggingu á verksmiðjum í grennd við Húsavíkur/Flateyjarmisgengið, þar sem gríðarlegir jarðskjálftar hafa orðið af og til í aldanna rás og lengi von á einum.
Einn bæjarbúa, Hörður Jónasson í Árholti, rakst á prófessor Pál í vikunni á vappi um bæinn, vatt sér upp að honum og spurði einfaldlega hvenær við mættum eiga von á næsta stóra Húsavíkurskjálfta. Og það stóð ekki á svari hjá Páli, sem sagði að fyrst búið væri að smala saman svo stórum og alþjóðlegum hópi jarðskjálftafræðinga á staðinn, þá tryði hann ekki öðru en að bæjarbúar af sinni alkunnu gestrisni byðu upp á myndarlegan jarðskjálfta á meðan ráðstefnan stæði yfir!
- Skarpur, 2. júní