Tvö skemmtiferðaskip munu fara til Hríseyjar í sumar og er það í fyrsta sinn sem ferðir þangað eru á áætlun skemmtiferðaskipa. Einu sinni áður hefur skemmtiferðaskip siglt til eyjunnar en það var árið 2016 þegar skipi var beint til Hríseyjar þar sem ekki var hægt að stoppa á Siglufirði. Áætlað er að fjölga ferðum til Hríseyjar ennfrekar næsta sumar og munu fjögur skip koma þangað árið 2019.
Skemmtiferðaskipum til Akureyrar heldur áfram að fjölga en í sumar koma 129 skip og er það aukning um fimm skip frá því í fyrra. Fjölgunin til Akureyrar hefur verið gríðarleg undanfarin ár en til samanburðar komu 63 skemmtiferðaskip árið 2013. Einnig er aukning í ferðum til Grímseyjar en þangað sigla 38 skemmtiferðaskip í sumar og er það fjölgun um sjö skip á milli ára.
Samanlagður farþegafjöldi skemmtiferðaskipa í ár til Akureyrar, Grímseyjar og Hríseyjar eru 128 þúsund manns.