Skemmdarverk í Akureyrarkirkju

Töluvert hefur verið um skemmdarverk á Akureyrarkirkju undanfarna mánuði og nú síðast á laugardagskvöld var steindur gluggi í kirkjunni brotinn. Kirkjuverðirnir Stefán Arnaldsson og Sveinn Jónasson eru sammála um ástandið hafi sjaldan verið verra. Sá sem braut gluggann um helgina reif upp litla hellu á bílastæði kirkjunnar, kastaði henni í gegnum gluggann og hafnaði hún á bekk inn í miðri kirkju.  

Alls brotnuðu 14 litlar einingar í glugganum. Sveinn sagði að það væri mjög tímafrekt að laga gluggann, þar sem nýtt gler kæmi frá Englandi. Taka þyrfti myndir af glugganum, gera skaplón af einingunum sem skemmdust og senda til Englands. Í desember sl. var bjórflösku kastað í gegnum glugga í stigauppgangi upp í turn Akureyrarkirkju og í febrúar voru neikvæð skilaboð skrifuð á aðaldyr kirkjunnar með tússpenna. Í síðasta mánuði voru svo öðru sinni skrifuð neikvæð skilaboð á dyr kirkjunnar með tússpenna. Einnig hafa verið unnar skemmdir á hurð á aðalinngangi kirkjunnar með eggvopni og hafa þeir Sveinn og Stefán þurft að leggja í mikla vinnu við lagfæringar á henni. Þá var gler í auglýsingaskilti fyrir utan kirkjuna brotið fyrir skömmu.

Stefán sagði að vissulega færi margt fólk um lóð kirkjunnar en að það væri mjög hvimleitt að svona hús fengi ekki að vera í friði. "Ástandið hefur versnað til muna í vetur, sem og almenn umgengni í kringum kirkjuna."

Nýjast