Skattkerfinu beitt til að styrkja landsbyggðina
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra boðar nýja nálgun í byggðamálum. Byggðastofnun vinnur nú að nýrri byggðaáætlun og kannar samhliða því hvort og hvernig beita megi skattkerfinu og námslánum til að bæta stöðu landsbyggðarinnar, Rúv sagði frá þessu.
Gunnar Bragi Sveinsson nýr Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og ráðherra byggðamála gerir ráð fyrir ákveðnum nýjungum. Aukið samráð og stýrihópur þvert á ráðuneyti til að fylgja byggðamálum eftir. Þá má búast við tillögum um hvernig beita megi skattkerfinu.
Gunnar Bragi Sveinsson segir að bæði Byggðastofnun og ráðuneytið hafi verið að skoða þessa hluti. „Ég hinsvegar tók þá ákvörðun um daginn að láta skoða það sérstaklega hvernig við gætum nýtt skattkerfið til þess að styðja við byggðirnar. Það eru dæmi um þetta frá hinum Norðulöndunum svo sem Noregi og Svíþjóð. Til dæmis þegar kemur að námslánum, flutningskostnaði, orkukostnaði. Það er ýmislegt sem hægt er að hugsa sér í því sambandi og læra af öðrum. Fyrirtæki hafa jafnvel fengið ódýrari fyrirtækjaskatta eða gjöld eða eitthvað slíkt. Við þurfum hinsvegar að starta þessu einhvers staðar hjá okkur, umræðunni um þetta, rannsóknum og athugunum,“ sagði hann í samtali við Rúv.
Gunnar Bragi vonast til að hugmyndir, tillögur eða vangaveltur um hvernig væri hægt að framkvæma þetta skili sér inn í Byggðaáætlun sem skilað verður í haust.