Skátar á Akureyri héldu fjöl- mennan fund á Sigurhæðum

St, Georgsgildið á Akureyri hélt á dögunum fjölmennan  fund á Sigurhæðum, húsi þjóðskáldsins Matthíasar Jochumssonar. Þar er góð aðstaða til fundarhalda, fyrir allt að 25-30 manna hópa. Skátarnir héldu heim sælir og saddir eftir góðan félagsfund, fræðslu um skáldið, húsið og gömlu Akureyri frá húsbóndanum og góðar veitingar frá skemmtinefndinni.  

St. Georgsgildin eru starfandi um allt land. Þau eru tengiliðir milli skátahreyfingarinnar og eldri skátafélaga, en það er ekkert skilyrði að félagar í st. Georgsgildunum hafi  verið skátar á yngri árum. Þeir sem eru eitt sinn skátar eru "ávallt" skátar og í þeim anda er starfsemi gildanna. Gildismenn vilja breiða skátahugsjónina út til sem flestra, sýna skátaandann í verki með hjálpsemi og ábyrgðartilfinningu.  St. Georgsgildið á Akureyri var stofnað árið 1963 og var Dúi heitinn Björnsson fyrsti gildismeistari. Núverandi gildismeistari er Sigurlína Sigurgeirsdóttir. St. Georgsgildið Kvistur er einnig starfandi á Akureyri.

St. Georgsgildið á Akureyri heldur félagsfundi einu sinni í mánuði níu mánuði ársins, en auk þess eru vinnufundir á mánudagskvöldum, frá hausti fram yfir jól. Þá er unnið við leiðiskrossa fyrir Kirkjugarða Akureyrar. Í vetur voru settir upp um 2.500 krossar og er þetta verkefni aðal tekjulind félagsins. Það gerir St. Georgs-skátunum kleift að styðja við starfsemi yngri skátanna í bænum. Félagið hefur nýlega keypt húsnæði við Freyjunes, þar sem er góð aðstaða til að halda fundi og útbúa krossana. Þá á félagið einnig "sæluhús" í Aðaldal.

Meðal skátanna voru nokkrir gamlir Akureyringar, sem ekki höfðu komið í Sigurhæðir áður. Það kom þeim á óvart, hvað húsið er "stórt" og rúmgott þótt lítið sé. Þeir voru einstaklega ánægðir eð fundinn og þann góða "Matthíasaranda", sem þeir fundu fyrir í húsinu. Gísli Sigurgeirsson, húsbóndi á Sigurhæðum, var ánægður með góða gesti. Sagði fund þeirra hafa einkennst af léttleika, söng og gamansemi, eins og hæfir hjá skátum.

Hann lét þess jafnframt getið, að húsbóndinn á Sigurhæðum væri "ávallt viðbúinn" því að taka á móti góðum gestum, t.d. klúbbum eða félögum á borð við St. Georgsgildið. Þeir sem hafa áhuga geta haft samband í síma 4626649 eða gis@simnet.is, segir í fréttatilkynningu.

Nýjast