SKÁTAFÉLAGIÐ KLAKKUR FÆR NÝTT HEIMILI

Bragi Björnsson skátahöfðingi heimsótti Klakk í tilefni tímamótanna. Fjölmargar viðurkenningar skáta…
Bragi Björnsson skátahöfðingi heimsótti Klakk í tilefni tímamótanna. Fjölmargar viðurkenningar skáta voru afhentar við tilefnið.

Miðvikudaginn 11. maí afhenti Akureyrarbær Skátafélaginu Klakki  nýtt húsnæði undir starfsemi sína í kjallara Þórunnarstrætis 99, sem betur er þekkt sem gamli Húsmæðraskólinn. Á efri hæðum hússins hefur öll skammtíma- og skólavistun fyrir fatlað fólk í bænum haft aðsetur síðan í mars 2014.

Fasteignir Akureyrar hafa undanfarið unnið að endurbótum á húsnæðinu og það var Halla Björk Reynisdóttir formaður stjórnar Fasteigna Akureyrar sem afhenti Siguróla Magna Sigurðssyni varaformanni samfélags- og mannréttindaráðs lyklana af nýja húsnæðinu. Samfélags- og mannréttindaráð styrkir starfsemi skátanna og afhenti varaformaðurinn Ólöfu Jónsdóttur félagsforingja Klakks húsnæðið til umráða um hæl.

Fram kom í máli Ólafar að skátar eru afar ánægðir með þessa nýju aðstöðu þar sem hver flokkur getur komið sér fyrir með sín verkefni. Sérstaklega gat hún þess að barnastarf Klakks yrði nú mun auðveldara en skátaheimilið var áður við útivistasvæðið að Hömrum sunnan Akureyrar. Samgöngur við nýja heimilið er því öllu auðveldara.

Eftir formlega afhendingu gafst gestum kostur á að kynna sér starfsemi skátafélagsins og skoða húsakynnin.  Í gildi er uppbyggingar- og framkvæmdasamningur milli bæjarins og skátafélagsins en þar er m.a. kveðið á um félagsaðstöðuna.

Saga hússins og framkvæmda þar

Árið 1943 lauk húsameistari ríkisins, Guðjón Samúelsson, við teikningar sínar af Húsmæðraskóla Akureyrar. Guðjón teiknaði nokkur hús á Akureyri á ferli sínum og má þar nefna Póst- og símabygginguna, Landsbankahúsið, Gagnafræðaskóla Akureyrar, Íþróttahúsið við Laugagötu, Sundlaug Akureyrar og Akureyrarkirkju. Húsið að Þórunnarstræti 99 ásamt Akureyrarkirkju eru að segja má þau einu sem eftir eru í nánast óbreyttri mynd og hefur því gamla Húsmæðraskólabyggingin mikið varðveislugildi. Byggingameistari hússins var Stefán Reykjalín og hófst smíði þess árið 1944 og var það vígt 13. október 1945.

Veturinn 1983-1984 var síðasti starfsvetur Húsmæðraskólans og rann þá starfsemi hans inn í nýstofnað hússtjórnarsvið Verkmenntaskólans á Akureyri. Verkmenntaskólinn starfaði í húsinu til vorsins 2002 þegar hússtjórnarsviðið flutti í nýtt húsnæði á Eyrarlandsholti. Eftir það var húsið notað af Háskólanum og síðustu árin af Akureyrarakademíunni.

Húsið var í sameiginlegri eigu ríkisins (75%) og Akureyrarbæjar (25%) þar  til í júní 2012 þegar Akeyrarbær kaupir hlut ríkisins.

Húsinu hafði ekki verið mikið viðhaldið og þarfnaðist lagfæringar þegar Akureyrarbær kaupir eignarhlut ríkisins 2012. Endurnýja þurfti allt ytra byrði hússins svo sem endursteina hús, gera við og endurnýja tröppur, endurnýja gler, endurnýja þak bæði klæðningu, bárujárn, þakniðurföll svo og drenlögn og frárennslislagnir, lagfæra þurfti lóð o.fl.. Innandyra þarf að skipta út hurðum, gólfefnum, endurnýja ofnakerfi, vatnslagnir, hreinlætislagnir, raflagnir og mála húsnæðið í heild. Áhersla var lögð á við endurbæturnar að halda sem mest ú upphaflega hönnun hússins. Húsið er þrjár hæðir samtals 926,4 m² að stærð og fá Skátarnir neðstu hæðina til afnota og rekstur skammtímavistunar og skólavistunar á Akureyri á efri hæðum hússins. (akureyri.is)

Nýjast