Skáldahúsin á Akureyri njóti jafnræðis
Á fundi stjórnar Akureyrarstofu 6. október sl. var sérstaklega fjallað um stöðu skáldahúsanna á Akureyri sem fá engan fjárhagslegan stuðning frá ríkinu ólíkt öðrum skáldahúsum í landinu. Bent var á að Skriðuklaustur, Snorrastofa, Gljúfrasteinn og Þórbergssetur fái samtals 118 milljónir króna úr ríkissjóði árlega en Davíðshús, Sigurhæðir og Nonnahús ekki neitt.
Brynhildur Pétursdóttir alþingismaður hefur beint fyrirspurnum til menntamálaráðherra vegna málsins og bent á að ekki gangi að það sé tilviljanakennt hvernig stuðningi ráðuneytisins til slíkra verkefna á landinu sé háttað. Hún bendir á að skáldahúsin á Akureyri séu hluti af menningararfleifð þjóðarinnar og ættu því að njóta sömu stöðu og samskonar verkefni annars staðar. Þá hefur hún skorað á ráðherra að breyta þessu.
Stjórn Akureyrarstofu skorar á menntamálaráðherra að breyta stöðu skáldahúsanna á Akureyri þannig að hún verði sambærileg við þau sem nefnd eru hér að ofan. Það er ekki einkamál Akureyrarbæjar að halda á lofti minningu þjóðskáldanna Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi og Matthíasar Jochumssonar eða barnabókahöfundarins Jóns Sveinssonar og sjálfsagt að ríkissjóður leggi þar hönd á plóg með beinum hætti. Til samanburðar má nefna að engum kæmi til hugar að sveitarfélagið Mosfellsbær reki upp á eigin spýtur Gljúfrastein til minningar um nóbelsskáldið Halldór Laxness.