Skákfélag Akureyrar fagnar 90 ára afmæli á þriðjudag

Skákfélag Akureyrar verður 90 ára næstkomandi þriðjudag en félagið var stofnað þann 10. febrúar árið 1919. Af þessu tilefni verður félagið með opið hús í Íþróttahöllinni frá kl. 16.30 á afmælisdaginn. Fyrsti formaður Skákfélagsins var Ari Guðmundsson en núverandi formaður er Gylfi Þórhallsson. Starfsemi félagsins varð strax æði þróttmikil og markaði spor í félagslífi bæjarins. Fyrsta opinbera skákmótið á Akureyri fór fram vorið 1920.  

Skákfélagið átti frumkvæði að stofnun Skáksambands Íslands 1925 á Blönduósi og fyrsta Íslandsmótið á Akureyri var haldið 1927. Á fjórða áratugnum hófust m.a. Skákþing Akureyrar, Haustmót Skákfélags Akureyrar og Skákþing Norðlendinga og hafa þessi mót verið haldin nánast árlega síðan. Unglinga- og barnastarf hefur verið ríkjandi hjá félaginu í áratugi og hafa  margir  félagar náð mjög góðum árangri á Íslandsmótum. Símskákir voru mjög vinsælar á þriðja og fjórða ártugnum og félagið tefldi símskákir vítt og breytt um landið. Fyrsta símskákkeppni hér á landi fór fram 1919 á milli S.A. og Taflfélags Reykjavíkur. Starfsemi félagsins hefur verið til húsa  í nánast öllum hverfum bæjarins. A-sveit félagsins hefur frá upphafi alltaf keppt í 1. deild á Íslandsmóti skákfélaga sem hófst á Akureyri 1974.

Í næsta mánuði 20. og 21.  mars fer fram síðari hluti Íslandsmóts skákfélaga á Akureyri og verða tefldar þrjár síðustu umferðirnar í öllum fjórum deildunum. Það hefur ekki gerst áður að keppt sé í öllum deildunum fjórum utan Reykjavíkur. Alls eru 54 sveitir í keppninni og eru um 350 keppendur að keppa hverju sinni, auk varamanna. Skákfélag Akureyrar er með fimm sveitir, eina í 1. deild, eina sveit í 2. deild og þrjár sveitir í 4.deild. Þá fer Hraðskákmót Íslands fram á Akureyri 22. mars og Skákþing Norðlendinga, hið 75. í röðinni, verður haldið á Akureyri í vor.   

Nýjast