Sjúkrahúsið á Akureyri leggur fram tillögur um sparnað í rekstri

"Enn hefur engin ákvörðun verið tekin um niðurskurð," segir Halldór Jónsson forstjóri Sjúkrahússins á Akrueyri, en forsvarsmenn þess hafa að beiðni heilbrigðisráðuneytis tekið saman tillögur um hvernig lækka má útgjöld sjúkrahússins á næsta ári.  

"Við höfum lagt okkar hugmyndir í pottinn og gerum ráð fyrir að þær verði skoðaðar í ráðuneytinu ásamt öðrum tillögum sama efnis," segir Halldór en þar sem ekki hefur verið fjallað um tillögurnar telur hann ekki tímabært að greina frá því nú í hverju þær felast.  Þær muni nú fara inni í fjárlagaferlið og síðar koma í ljós hverjar lyktir máls verða.

Hann segir að menn hafi horft til þess við tillögugerðina á hvern hátt fjármunum verði best varið og skoðað m.a. í því samhengi hvort samnýting og eða sameining heilbrigðisstofnana á svæðinu komi til greina.  "Okkar lausn felst í því að skerða þjónustu sem allra minnst, en vissulega eru ákveðin mörk á því hvað hægt er að taka mikið af peningum út úr þessu kerfi án þess að þjónusta skerðist," segir  Halldór. Hann bendir á að um 70% kostnaðar við rekstur heilbrigðisstofnana komi til vegna launakostnaðar.  Það setji málinu ákveðnar skorður.  Hægt sé tímabundið að fresta framkvæmdum og tækjakaupum, en lítið hægt að hrófla við launakostnaði.

"Við höfum tekið til í okkar ranni, en auðvitað er alltaf hægt að endurmeta hlutina," segir  Halldór.  Hann segir yfirstandandi ár koma nokkuð vel út þó reksturinn sé ekki í jafnvægi nú.  Á fyrstu 9 mánuðum ársins varð 126 milljóna króna halli á rekstrinum, um 4,2%.  Forsendur hafi breyst mikið, en verðlagsþróun hafi orðið með öðrum hætti en gert var ráð fyrir við gerð fjárlaga fyrir árið.  Hefði verðlagsþróun orðið sú sem reiknað var með við gerð fjárlaga næmi hallinn 0,64%, væri innan skekkjumarka eins og Halldór orðar það.  "Það hafa orðið gríðarlegar verðbreytingar og allt aðrar aðstæður uppi nú en lagt var upp með, við þær fáum við ekki ráðið," segir Halldór.

Nýjast