Ívið meiri starfsemi var fyrstu níu mánuði ársins á Sjúkrahúsinu á Akureyri miðað við sama tíma í fyrra. Fram kemur í pistli Bjarna Jónssonar forstjóra SAk á heimasíðu sjúkrahússins að legudögum hafi fjölgað og oft á tíðum hafi stóru legudeildirnar verið yfirfullar með tilheyrandi álagi á starfsemina.
„Aðgerðir í tengslum við styttingu biðtíma eftir gerviliðaaðgerðum og augasteinsaðgerðum hafa gengið mjög vel með samstilltu átaki allra sem að hafa komið. Meðallega á öllum deildum er nú 4,6 dagar en 3,4 dagar ef einungis er skoðuð meðallega á bráðadeildum sem er óbreytt frá fyrra ári. Fæðingar eru á pari miðað við síðasta ár,“ skrifar Bjarni.
Töluverð aukning er á sjúkraflugi á milli ára eða 17%. Sjúkraflugin voru 614 fyrstu níu mánuði ársins samanborið við 526 á sama tíma í fyrra.
Þá er áframhaldandi aukning á komum á bráðamóttöku, almennu göngudeildina og rannsóknum.