Sjóvá hefur gert samstarfssamning við Drift EA og gengur þar með til liðs við hóp bakhjarla miðstöðvarinnar. Með samstarfinu styður Sjóvá við nýsköpun og frumkvöðlastarf á Íslandi og tekur virkan þátt í að styrkja umgjörð og stuðningsumhverfi frumkvöðla um land allt.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem Drift EA sendi út til fjölmiðla eftir hádegið í dag.
Drift EA er kraftmikil miðstöð frumkvöðla og nýsköpunar þar sem samfélag, þekking og aðstaða skapa frjóan jarðveg fyrir hugmyndir til að þróast og vaxa. Með samstarfinu sýnir Sjóvá vilja til að styðja við uppbyggingu öflugs frumkvöðlaumhverfis og atvinnulífs, sérstaklega á Norðurlandi.
„Það skiptir okkur miklu máli að fá trausta bakhjarla sem styðja við nýsköpun og samfélagslega uppbyggingu. Samstarfið við Sjóvá styrkir starfsemi Drift EA og gerir okkur kleift að veita frumkvöðlum enn betri aðstöðu og stuðning,“ segir Sesselja Ingibjörg Barðdal, framkvæmdastýra Drift EA.
Sjóvá hefur lengi gegnt mikilvægu hlutverki í íslensku atvinnulífi með því að styðja við fyrirtæki, einstaklinga og samfélög um land allt. Samstarfið er liður í því að styðja við uppbyggingu og framþróun íslensks atvinnulífs og samfélags.
„Nýsköpun og frumkvöðlastarf skipta miklu máli fyrir þróun atvinnulífs og samfélags. Með samstarfinu við Drift EA viljum við styðja við frumkvöðla og góðar hugmyndir sem hafa möguleika á að vaxa og skapa verðmæti til framtíðar“, segir Valgeir Páll Guðmundsson, svæðisútibústjóri Sjóvá á Norðurlandi.
Drift EA fagnar samstarfinu og lítur á það sem mikilvægt skref í áframhaldandi eflingu nýsköpunar á landsvísu.