Sjóræningjafánum var flaggað á Ráðhústorgi á Akureyri í morgun, í tilefni af frumsýningu Gulleyjunnar hjá Leikfélagi Akureyrar í kvöld. Verslunin the Viking á Akureyri gaf LA hátt í hundrað sjóræningjafána og verða þeir flestir gefnir til þeirra sem eiga flaggstöng og vilja sýna sjóræningjunum samstöðu með því að draga fána að hún. Áhugasamir geta nálgast fána í miðasölu Samkomuhússins fyrir frumsýninguna. Í Gulleyjunni lifnar við ein frægasta sjóræningjasaga allra tíma, í líflegri og bráðfyndinni leikgerð þeirra Karls Ágústs Úlfssonar og Sigurður Sigurjónssonar, sem jafnframt er leikstjóri.
Leikararnir í sýningunni eru sjö og þar á meðal er leikarinn góðkunni úr Ólafsfirði, Guðmundur Ólafsson. Í Vikudegi, sem kom út í gær, er ítarlegt viðtal við Guðmund, sem segir að þetta verk, sem er byggt á sögu eftir Robert Louis Stevenson, sé fyrirmynd flestra sjóræningjasagna. Þarna er fjársjóðskort, fjársjóður, sjóræningar og uppreisn, að ógleymdum skrautlegum karakterum eins og Langa Jóni, sem er einfættur og hættulegur og nokkurs konar ímynd sjóræningjans. Verkið segir frá unglingum sem finna fjársjóðskort og þeir fara af stað að leita að fjársjóðnum. En áhöfn skipsins gerir uppreisn, tekur völdin um borð og ætlar sér sjálf að komast yfir fjársjóðinn. Sagan segir jafnframt frá þeim átökum sem verða þegar komið er á eyjuna og hvernig þessu öllu reiðir af, segir Guðmundur.
Leikararnir eru í 2-3 hlutverkum í sýninginni og sjálfur er Guðmundur í þremur hlutverkum og það gengur því oft mikið á baksviðs. Hann segir að þetta sé fjölskyldusýning, fyrir börn 5-6 ára og uppúr. Það er oft mikill hasar í gangi og ekki eintóm góðmenni á sviðinu. Þetta er mikið sjónarspil og mikil tónlist eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson. Þá erum við með úrvalsfólk á öllum póstum. Mér finnst leikmyndin hans Snorra Freys Hilmarssonar alveg frábær, það sama á við um lýsingu Björns Bergsteins Guðmundssonar og búningarnir sem þær Agnieszka Baranowska og Júlíanna Lára Steingrímsdóttir hanna eru ævintýralegir.
Æfingar á Gulleyjunni hafa staðið yfir nokkuð lengi en allt hófst þetta með yfirlestri með höfundunum, Karli Ágústi og Sigurði í ágúst sl. Æfingar hófust svo í nóvember og þar sem hér er um að ræða samstarfsverkefni LA og Borgarleikhússins, fóru æfingar fram í Borgarleikhúsinu til að byrja með. Meiningin er að sýningin fari suður næsta haust. Við byrjuðum að æfa á Akureyri í byrjun desember og æfðum þar fram að jólum og svo hefur þetta verið svolítill sprettur að undanförnu. Æfingar hafa gengið vel og síðasti leikarinn, págagaukurinn Joshua, kom norður í síðustu viku. Hann heitir reyndar Flint skipstjóri í verkinu, í höfuðið á þeim manni sem faldi fjársjóðinn sem leitað er að. Joshua hefur hagað sér vel á æfingum hingað til og vonandi gerir hann það einnig þegar sýningar hefjast.
Guðmundur segir að Gulleyjan sé einstaklega skemmtilegt verk og hann er mjög bjartsýnn á því verði vel tekið. Þetta er fjölskyldusýning og það er alveg upplagt fyrir bæjarbúa að koma í leikhúsið og eins þær fjölskyldur sem eru að koma norður, t.d. á skíði. Þeir sem hingað hafa komið og séð það sem við erum að gera, eru mjög ánægðir, þannig að ég er bjartsýnn, segir Guðmundur m.a. í viðtalinu í Vikudegi.
Aðrir leikarar í Gulleyjunni eru; Björn Jörundur Friðbjörnsson, Einar Aðalsteinsson, Ívar Helgason, Kjartan Guðjónsson, Örn Haraldsson, Þóra Karítas Árnadóttir og Þórunn Erna Clausen.