Sjö verktakar sendu inn tilboð í byggingarframkvæmdina Grunnskóli Ólafsfjarðar 1. áfangi en tilboðin voru opnuð í dag. Bjóðendum var jafnframt boðið að senda inn frávikstilboð og sendu fjórir þeirra inn frávikstilboð. Öll sjö tilboðin sem bárust voru yfir kostnaðaráætlun en hún var sú sama í báðum tilvikum, eða rúmar 154,1 milljón króna. Fyrirtækið Eykt ehf. átti lægsta tilboð í verkið, rúmar 158,6 milljónir króna, eða 102,9%. ÍAV átti næst lægsta tilboð, rúmar 192,8 milljónir króna, eða 125,1% af kostnaðaráætlun. Hvorugt þessara fyrirtækja skilaði inn fráviktilboði. Berg ehf/GJ Smiðir buðu tæpar 168 milljónir króna í verkið og áttu þriðja lægsta boð eða 109% af kostnaðaráætlun. Fyrirtækin áttu jafnframt lægsta frávikstilboðið, rúmar 159,1 milljón, eða 103,2% af kostnaðaráætlun. Hæsta tilboðið átti SS Byggir, rúmar 204,2 milljónir króna, eða 132,5%. Fyrirtækið átti jafnframt þriðja lægsta frávikstilboðið, rúmar 174,4 milljónir króna, eða 113,1%. Í aðaltilboðinu er miðað við að verkinu skuli að fullu lokið þann 1. septemer nk. en í frávikstilboðinu er miðað að verkinu verði skilað í áföngum frá september til desember en að lokaskil verði 21. desember nk.