Konur aldrei verið fleiri í bæjarstjórn Akureyrar
Bæjarstjórn Akureyrar mun taka breytingum á næstunni þar sem Logi Már Einarsson og Njáll Trausti Friðbertsson eru á útleið og á leiðinni á þing. Dagbjört Pálsdóttir kemur inn í stað Loga fyrir Samfylkinguna og að Bergþóra Þórhallsdóttir mun aðöllum líkindum koma inn í stað Njáls Trausta hjá Sjálfstæðisflokknum. Þar með verða sjö konur í bæjarstjórn Akureyrar á móti fjórum körlum og hefur það aldrei gerst áður.
Mest hafa konur verið sex á móti fimm körlum, líkt og var í upphafi kjörtímabilsins. Staða kvenna gæti vænkast ennþá meira komi Margrét Kristín Helgadóttir hjá Bjartri framtíð aftur inn í bæjarstjórn en hún er í ársleyfi. Preben Jón Pétursson situr sem bæjarfulltrúi í hennar stað.