Sjálfstæðisflokkur og Vg myndu bæta við sig manni
L-listinn, listi fólksins, mælist enn lang stærsta stjórnmálaaflið á Akureyri í nýrri könnun sem gerð hefur verið á vegum Félagsvísindadeildar Háskólans á Akureyri. L-listinn tapar samt nokkru fylgi miðað við kosningarnar 2010 og myndi missa einn bæjarfulltrúa og þar með meirihlutann í bæjarstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri grænir eru hins vegar í sókn og bæta við sig töluverðu fylgi og báðir þessir flokkar myndu fá tvo bæjarfulltrúa samkvæmt könnuninni, en þeir hafa einn nú. Bæjarlisti Sigurðar Guðmundssonar myndi hins vegar tapa sínum fulltrúa. (Sjá línurit. Smellið á mynd til að stækka hana.)
Mér sýnist L-listinn geta vel við unað og það er athyglisvert hversu vel flokkurinn heldur sínu fylgi miðað við að vera einn í meirihluta. Þá er fróðlegt að sjá að sjálfstæðismenn og vinstri grænir virðast vera að sækja á en allir aðrir eru að tapa fylgi. Sérstaklega býst ég við að Framsókn og Samfylking hafi ástæðu til að íhuga sína stöðu á meðan hægt er hugsa sér að fylgi Bæjarlstans sé að fara til baka til Sjálfstæðisflokksins, segir Birgir Guðmundsson stjórnmálafræðingur við Háskólann á Akureyri í samtali við Vikudag.
Ánægja með meirihlutann
Í könnuninni, var einnig spurt um ánægju/óánægju með störf L-listans. Kemur þar fram að 5% svarenda eru mjög ánægð og 36% frekar ánægð með störf hans. Samtals eru því 41% bæjarbúa ánægðir með störf meirihlutans. Um 30% bæjarbúa eru hvorki ánægð né óánægð en 29% eru óánægð með störf L-listans, þar af voru 10% mjög óánægð.
Annar hver þorpari styður L-lista
Áhugavert er að skoða stuðning við flokkana eftir hverfum. Í ljós kemur að næstum annar hver íbúi í þorpinu, eða 48% þeirra sem búa norðan Glerár er stuðningsmaður L-listans á meðan rétt rúmlega 30% íbúa sunnan Glerár styður flokkinn. Mun líklegra er hins vegar að hitta fyrir fylgisfólk Vinstri grænna sunnan Glerár, en rúm 23% íbúa í þeim bæjarhluta styðja Vg á meðan aðeins rúm 8% íbúa norðan Glerár gera það.
Dalsbraut
Loks var í könnuninni spurt hvort fólk væri fylgjandi eða andvígt lagningu Dalsbrautar. Í ljós kom að sjónarmið bæjarbúa skiptust mjög í tvö horn. Helmingur bæjarbúa eru hlynntir lagningu Dalsbrautar, þar af eru 31% mjög hlynnt henni og 19% frekar hlynnt henni. Hins vegar eru 33% bæjarbúa á móti Dalsbrautarlagningunnni, þar af 21% mjög andvíg og 12% freka andvíg.
Könnunin var símakönnun á Akureyri sem gerð var dagana 9.-16. október af nemendum í þjóðfélagsfræði við Háskólann. Útakið var 1000 manns og svarhlutfall rúmlega 50%.