Sinfóníuhljómsveit Íslands með tónleika í Hofi í fyrsta sinn
Sinfóníuhljómsveit Íslands kemur fram í fyrsta sinn í Hofi fimmtudagskvöldið 27. október kl. 19:30. Á efnisskránni eru tvö meistaraverk: glæsilegur klarínettukonsert Webers og kraftmikil sinfónía Beethovens. Stjórnandi er Daníel Bjarnason, sem starfar jöfnum höndum sem hljómsveitarstjóri, tónskáld og útsetjari. Einleikari á tónleikunum er Einar Jóhannesson en hann hefur um árabil verið meðal fremstu tónlistarmanna landsins.
Einar gegnir stöðu sólóklarínettuleikara við Sinfóníuhljómsveit Íslands, er stofnfélagi Blásarakvintetts Reykjavíkur og leikur með Kammersveit Reykjavíkur. Meðal hljómsveita sem Daníel hefur stjórnað eru London Sinfonietta, Sinfóníuhljómsveit Íslands og hljómsveit Íslensku óperunnar. Auk þess er hann hljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi kammersveitarinnar Ísafoldar.