SÍMEY útskrifaði 63 nemendur

Hluti brautskráningarhópsins sem lauk námi sínu í SÍMEY. Mynd/SÍMEY.
Hluti brautskráningarhópsins sem lauk námi sínu í SÍMEY. Mynd/SÍMEY.

Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar útskrifaði á dögunum 63 nemendur af sjö námsleiðum, auk þess sem útskrifaðir voru nemendur úr almennri starfshæfni. Námsleiðirnar sjö, sem allar eru vottaðar námsleiðir Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, eru félagsliðabrú, stuðningsfulltrúabrú, nám og þjálfun í almennum bóklegum greinum, sölu-, markaðs og rekstrarnám, námsleiðin Sterkari starfsmaður, myndlistarnámið Fræðsla í formi og lit og Íslensk menning og samfélag.
Brautskráningin fór fram í húsakynnum SÍMEY og voru þar einungis brautskráningarnemar og starfsfólk SÍMEY.

Valgeir Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, sagði í brautskráningarávarpi sínu að til viðbótar við þá sem útskrifuðust núna í sumar hafi SÍMEY nú þegar útskrifað nokkra nemendahópa á þessari önn, t.d. eftir að hafa setið íslenskunámskeið, fjölmörg fyrirtækjaskólanámskeið, vefæg námskeið o.s.frv. Hann sagðist áætla að þátttakendafjöldi hjá SÍMEY á ári sé um fjögur þúsund manns, í námi, raunfærnimati og ráðgjöf hvers konar, og samkvæmt því væri SÍMEY fjölmennasta menntastofnun í Eyjafirði og þriðja stærsta símenntunarmiðstöð landsins.

Valgeir þakkaði í lok ávarps síns starfsmönnum SÍMEY fyrir vel unnin störf á krefjandi tímum – föstum starfsmönnum, kennurum, leiðbeinendum og öðrum þeim sem leggja hönd á plóg fyrir SÍMEY en í það heila eru það um 150 manns. Frá þessu er greint á vef SÍMEYJAR.


Nýjast