Síkið heim

Inga Dagný Eydal.
Inga Dagný Eydal.

Jæja þá skall á okkur vor. Við sem erum orðin sólþyrst og langþreytt á kuldanum þyrpumst út og dembum okkur í vorverkin. Það er eins gott að vaka og vinna þetta stutta íslenska sumar því nú þarf að bera á pallinn, taka fram grillið og athuga með gasið, kaupa sumarblómin og matjurtirnar, fara yfir sláttuvélina, bera blákorn á flötina, klippa runnana, setja sumardekkin undir bílinn, fara yfir fellihýsið, mála útidyrahurðina og laga steypuskemmdina í tröppunum,- svona til að telja upp það helsta.

Timburverk Íslendinga er annálað því við þurfum auðvitað skjól fyrir heimskautavindum og forvitnum vegfarendum, þannig að við byggjum í kringum okkur girðingar, palla og skjólveggi. Allt þetta timbur þarf svo auðvitað viðhald og dútl. Hér heima hjá mér er verið að byggja myndarlega girðingu og í raun vantar bara gaddavírinn ofan á og þá kemst enginn yfir nema fuglinn fljúgandi. Reyndar þarf okkar litli garður einnig að vera hundheldur og þá duga nú engar smágirðingar. Ég hef ákveðnar hugmyndir um síki hér innan við virkisvegginn en ég ætla ekki að viðra þær við manninn minn alveg strax. Það gæti tekið tíma að fá samþykki fyrir svoleiðis. Annars er hverjum vissulega í sjálfsvald sett hvernig hann nýtir sitt sumar.

Það er ekki bannað að hanga með svaladrykk og hatt, veifa berum tánum, hugsa fallegar hugsanir og horfa á fíflana blómstra og grasið grænka. Sumarbrasið ofantalda er frábært ef menn hafa gaman af því, annars er bara að sleppa því. Almenningsgarðar s.s. Lystigarðurinn og Kjarnaskógur eru líka staðir sem við gætum notað meira. Þangað má fara með teppi og kodda, kaffi á brúsa og kleinur í boxi og njóta daganna. Mér fyndist að það mætti bæta Leikhúsflötinni í þennan hóp og gera þar fallegan garð með bekkjum fyrir ömmur og grænum flötum þar sem hægt er að liggja og horfa á skýin. Með hljóðmön að Drottningarbraut og tengingu við Leikhúsbrúna.

Megi þetta sumar verða okkur langt og grænt og ljúft!


Nýjast