Síkátir Súluungar komu saman á veitingastaðnum Strikinu

Bjarni Bjarnason skipstjóri á Súlunni EA og kona hans Fríður Gunnarsdóttir buðu Súluungum og mökum þeirra til veislu á veitingastaðnum Strikinu á dögunum. Súluungar eru þeir kallaðir sem starfað hafa sem skipverjar á Súlunni.

Jafnframt var Bjarni að fagna 40 ára starfsafmæli sínu á þessu þekkta aflaskipi og þar af sem skipstjóri í 30 ár. Við þetta tækifæri sýndi Gísli Sigurgeirsson fyrrverandi fréttamaður, nýja útgáfu af Súlumyndinni en Gísli hefur farið í nokkrar veiðiferðir með Súlunni í starfi sínu sem fréttamaður. Bjarni sagði að veislan hefði tekist mjög vel í alla staði en alls mættu um 100 manns á Strikið. "Við erum rosalega ánægð með hversu margir komu, því það var ómögulegt að geta sér til um það fyrirfram. Fólk skemmti sér mjög vel og þar með var tilgangnum náð," sagði Bjarni. Hann sagðist ekki geta sagt til um hversu margir hafi verið skipverjar um borð í Súlunni undanfarin 40 ár, það væri töluverður fjöldi, þótt margir hafi einnig verið lengi um borð. Sjálfur fór Bjarni sinn fyrsta túr á Súlunni þann 17. mars árið 1968 en þá var Baldvin Þorsteinsson skipstjóri og sonur hans, Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja var þá einnig um borð. Bjarni byrjaði af leysa af sem skipstjóri 1973 og tók svo við Súlunni árið 1978

Bjarni sagðist mjög sáttur við feril sinn um borð í Súlunni, "það væri lygi að segja annað. Það hafa ekki orðið nein óhöpp sem talandi er um og það er fyrir mestu. Það hafa allir komið heilir að landi og það skiptir öllu, því stundum hefur nú sopið á því. Þá hefur einnig gengið þokkalega og ég held að þessi bátur hafi skilað sínu, aflabrögðin hafa alla vega verið í meðallagi." Bjarni og Sverrir Leósson seldu Súluna til Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á síðasta ári en þrátt fyrir það hefur Bjarni enn verið að fara með skipið til veiða, nú síðast í vetur og hann sagði að það gæti allt eins orðið að veiðiferðirnar yrðu fleiri. Saga Súlunnar nær allt aftur til ársins 1902 en til Akureyrar kom skipið 1905. Þrjú skip hafa borið þetta nafn, það fyrsta aðeins í fá ár. Gamla Súlan, forveri Súlunnar í dag, fórst út af Garðskaga í páskahretinu mikla árið 1963, þar sem fimm menn fórust en Grímur Karlsson skipstjóri á Sigurkarfa frá Njarðvík og menn hans björguðu öðrum skipverjum. 

Nýjast