Sigurður Aðalsteinsson segir frá flugmannsferli sínum

Jón Hjaltason, sagnfræðingur og ritstjóri Súlna
Jón Hjaltason, sagnfræðingur og ritstjóri Súlna

mth@vikubladid.is

Súlur, tímarit Sögufélags Eyfirðinga, er komið út og flytur að vanda fjölbreytt efni úr fortíð og nútíð, alls 13 greinar eftir 17 höfunda.

„Að venju kennir margra grasa í nýútkomnu riti,“ segir Jón Hjaltason sagnfræðingur og  ritstjóri Súlna. Ásamt honum eru í ritnefnd þau Ása Marinósdóttir, Björn Teitsson og Kristín Aðalsteinsdóttir. „Við höfum allar klær úti varðandi efnisöflun. Fólk má hafa samband við okkur hvenær sem er, hvort heldur með efni eða hugmyndir að efni,“segir hann.

Sem dæmi um efni í ritinu nú nefnir hann grein eftir Kristínu Aðalsteinsdóttir sem ræðir við  Sigurð Aðalsteinsson flugmann, en hann segir frá sínum flugmannsferli og lætur fljóta með óborganlega gamansögu af Arngrími Jóhannssyni.

Merkilegar frásagnir

Af öðru efni má nefna frásagnir af ótrúlegum lífskjörum tveggja kvenna, hernámsárunum í Hrísey, hinu stórmerka Síldarminjasafni á Siglufirði, séra Jóni í Möðrufelli og niðurlægingu dóttur hans (sem snerist upp í andhverfu sína), nafna hans Sigurðssyni, trésmíðameistara á Dalvík, rannsókn á lífsháttum í Svarfaðardal á miðöldum – og Stóra-Mixmálið er krufið til mergjar.

Jón segir að helst þurfi viðfangsefnið að vera eyfirskt. „En tengingin getur verið með ýmsum hætti. Sem dæmi má nefna harðneskjulega uppeldissögu Jónu Waage. Saga hennar í Súlum gerist fyrir vestan en Jóna bjó lengst af á Akureyri.“

Fjölmargar ljósmyndir prýða Súlur að þessu sinni og  nefnir Jón einkum

grein Þórðar Vilhjálmssonar um Vélsmiðjuna Odda. „Í þessum efnum hefur Minjasafnið á Akureyri verið okkur afar hjálplegt sem ber að þakka.“

Sögufélagið fagnar öllum nýjum félagsmönnum en Súlur eru innifaldar í félagsgjaldinu.

Formaður félagsins er Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir, gjaldkeri Jón Hlynur Sigurðsson og ritari Arnór Bliki Hallmundsson.

 


Athugasemdir

Nýjast