Sigur hjá Þór/KA í lokaleiknum
Þór/KA bar sigurorð af KR er liðin mættust á Þórsvelli í lokaumferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í dag. Lokatölur urðu 4:0. Heimamenn höfðu mikla yfirburði í leiknum, þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Staðan í hálfleik var 3:0 en þær Sandra Maria Jessen, Manya Makoski og Maria Perez-Fernandez skoruðu sitt markið hver. Það var svo Diane Caldwell sem bætti við fjórða marki Þórs/KA þegar tíu mínútur lifðu leiks og öruggur sigur norðanstúlkna í höfn.
Sigurinn hefði hæglega geta orðið stærri, en heimamenn fengu urmul af færum í leiknum. Helena Jónsdóttir stóð í marki Þórs/KA í dag og gerði vel með að verja vítaspyrnu frá KR í fyrri hálfleik.
Þór/KA endar því í fjórða sæti deildarinnar með 32 stig en KR í því áttunda með 13 stig.