Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrrverandi forsætisráðherra hefur síðustu daga verið að hitta framsóknarfólk í Norðurlandskjördæmi eystra og m.a. fundaði hann með Framsóknarmönnum á Akureyri síðastliðinn laugardag. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum fréttavefsins dagskrain.is kom fram að Sigmundur Davíð mun sækjast eftir að leiða flokkinn í næstu kosningum og skipa áfram efsta sæti á lista Framsóknar í kjördæminu. Þá segir heimildamaður dagskáarinnar.is að Sigmundur Davíð hafi útskýrt sína hlið á því sem fram fór á milli hans og Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands á fundi þeirra 5. apríl s.l.
Sá fundur var undanfari þess að Ólafur Ragnar hélt fordæmalausan blaðamannafund á Bessastöðum. Þar skýrði hann blaðamönnum frá því að Sigmundur Davíð hafi óskað eftir fundi á Bessastöðum þar sem hann hafi lagt fram þingrofstillögu.
Sigmundur Davíð sagði fljótlega í kjölfarið af sér embætti forsætisráðherra eins og komið hefur fram. Hann hefur síðar sagt að engin formleg þingrofstillaga hafi verið lögð fram á umræddum fundi.
Heimildamaður fréttavefsins dagskrain.is fullyrðir að Sigmundur Davíð hafi sagt á fundinum á Akureyri um helgina, að á umræddum fundi hans á Bessastöðum með forseta Íslands þennan örlagaríka dag 5. apríl s.l. hafi Ólafur Ragnar tjáð honum; að hann væri tilbúinn með utanþingsstjórn. Hann hafi jafnframt sagt Sigmundi Davíð að Einar K. Guðfinnsson yrði forsætisráðherra og Már Guðmundsson seðlabankastjóri myndi fara fyrir fjármálaráðuneytinu. Þá sagðist Sigmundur Davíð telja að Þorsteinn Pálsson og Friðrik Sóphusson hafi átt að taka sæti í þessari ríkisstjórn.
„Þetta eru staðlausir stafir allt saman,“ sagði Örnólfur Thorsson forsetaritari þegar dagskrain.is bar þessi meintu orð forsætisráðherrans undir hann. „Ég spurði forsetann og þetta er vitleysa, en við vitum náttúrlega ekkert um það hvort þetta er rétt eftir haft eða ekki,“ sagði Örnólfur.
Sigmundur Davíð hafði ekki svarað fyrirspurn sem dagskrain.is sendi honum um málið áður en fréttin fór í loftið.
Fréttin var uppfærð kl. 23:00 :
Jóhannes Þór Skúlason aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hafði samband við blaðamann í kvöld og vildi koma því á framfæri að Sigmundur Davíð teldi vitlaust eftir sér hermt, „Sigmundur sagði ekki á fundinum [á Akureyri innsk. Blm.] og hefur hvergi sagt að forseti hafi tjáð honum á Bessastöðum að utanþingsstjórn væri tilbúin eða að einhverjir ákveðnir menn hafi átt að vera þar innanborðs,“ sagði Jóhannes í kvöld. Dagskrain.is mun fylgja málinu eftir. /epe.