Síðustu Sumartónleikarnir í Akureyrarkirkju á sunnudag

Síðustu tónleikar sumarsins í tónleikaröðinni Sumartónleikar í Akureyrarkirkju verða sunnudaginn 31. júlí kl. 17:00 en þá munu frábærar listakonur heimsækja Akureyri. Það eru þær Guðrún Ingimarsdóttir sópran, Sigrún Eðvaldsdóttir  fiðluleikari og Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari og munu þær leika klassískar perlur eftir þekkt tónskáld, m.a. Mozart, Bach, Händel og Tchaikovsky.  

Sigrún Eðvaldsdóttir er einn af þekktustu fiðluleikurum Íslands og hennar er getið sem eins af áhugaverðustu fiðluleikurum framtíðarinnar í bók Henry Roth Violin Virtuosos from Paganini to the 21st Century sem kom út árið 1997 og einnig í tónlistartímaritinu Le Monde de la Musique árið 1998. Sigrún hefur unnið til verðlauna í alþjóðlegum fiðlukeppnum, hlotið  bjartsýnisverðlaun Bröste og verið sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín á sviði tónlistar. Nokkur tónskáld hafa samið verk sérstaklega fyrir Sigrúnu og tileinkað henni. Hún er 1. konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands og hefur margoft komið fram sem einleikari með hljómsveitinni. Hún er nýkomin heim úr tónleikaferðalag til Kína.

Guðrún Ingimarsdóttir er einnig nýkomin til landsins en hún býr í Þýskalandi og starfar sem söngkona í  Evrópu. Hefur hún sungið vítt og breitt við margvísleg verkefni með öðrum þekktum listamönnum og verið sæmd heiðursorðu Johann Strauss félagsins í Þýskalandi. Guðrún hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir söng sinn og vann til verðlauna í alþjóðlegu Erika Köth söngkeppninni í Þýskalandi 1996.

Anna Guðný Guðmundsdóttir hefur starfað á Íslandi við margvísleg störf píanistans, í kammertónlist, meðleik og sem einleikari og hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2009 sem flytjandi ársins. Anna Guðný hefur verið píanóleikari Kammersveitar Reykjavíkur um langt árabil; ferðast víða með henni og leikið inn á geisladiska, en alls hefur hún leikið inn á um 30 geisladiska með ýmsum listamönnum.. Hún er fastráðin við Sinfóníuhljómsveit Íslands og kennir við Tónlistarskólann í Reykjavík. Það hlýtur að vera einstakt tækifæri fyrir tónlistaráhugafólk að fá að hlýða á þetta flotta tríó og að vanda er ókeypis á tónleikana, segir í fréttatilkynningu.

Nýjast