Síðustu Sumartónleikarnir í Akureyrarkirkju
Tónleikaröðinni Sumartónleikar í Akureyrarkirkju lýkur þetta árið á sunnudaginn. Það er Funi sem lokar hringnum að þessu sinni.
Funi er tvíeyki, skipað Báru Grímsdóttur og Chris Foster. Þau flytja þjóðlög frá Íslandi og Englandi. Þau hafa unnið saman síðan 2001, blásið nýju lífi í þessa gömlu tónlist, en einnig bætt á efniskrána nýjum lögum sem samin eru í gamla stílnum við gömul kvæði. Þau hafa sérstaklega áhuga á rímna og kvæðalagahefðinni, en þau flytja einnig annars konar veraldleg lög og sálma. Hér áður fyrr voru þessi lög einungis sungin en Funi syngur og leikur þau á gítar, langspil og kantele.
Á tónleikunum mun Funi flytja lög sem ekki hafa áður verið á efnisskránni, þar á meðal lög af væntanlegri sóló plötu Chris með enskum þjóðlögum, en einnig lög af plötunum Flúr, Funi og Outsiders.
Aðgangur að tónleikunum er ókeypis og hefjast þeir klukkan 17.