Síðasta sýningin af Hamingjudögum

Síðasta sýningin af Hamingjudögum fer fram í Borgarleikhúsinu á fimmtudagskvöldið. Um gestasýningu Leikfélags Akureyrar er að ræða. 

Leikfélag Akureyrar frumsýndi Hamingjudaga eftir nóbelsverðlaunaskáldið Samuel Beckett í Menninarhúsinu Hofi í byrjun september. Verkið hefur fengið feykilega góða dóma gagnrýnenda og hlaut meðal annars fjórar stjörnur af fimm í Morgunblaðinu. 

Með hlutverkin fara Edda Björg Eyjólfsdóttir og Árni Pétur Guðjónsson. Leikstjóri er Harpa Arnardóttir, um leikmynd og búninga sér Brynja Björnsdóttir, lýsingin er í höndum Ólafs Ágústs Stefánssonar en Ísidór Jökull Bjarnason sér um tónlist og hljóðmynd. Þýðingin er eftir Árna Ibsen en þýðingin er yfirfarin af Hafliða Arngrímsyni. 

Verkið fjallar um takmarkalausan lífsvilja manneskjunnar og ódauðleika bjartsýninnar. Það þykir eitt skemmtilegasta leikrit Nóbelshöfundarins sem lætur hér gamminn geisa með hrífandi húmor, visku og ólíkindi.

„Ó, þetta er hamingjudagur, þetta verður enn einn hamingjudagur!“ segir Vinní, frægasta kvenpersóna Samuels Becketts. Hún er ákveðin í því að lífið sé hamingjuríkt og fallegt, þrátt fyrir að útlitið sé allt annað en bjart.


Athugasemdir

Nýjast