Alls komu sex fíkniefnmál upp á Akureyri um helgina þar sem lagt var hald á rúm 40 grömm af amfetamíni, um 5 grömm af kókaíni og rúm 15 grömm af kannabisefnum. Þá hafa ellefu ökumenn verið teknir vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna síðustu vikuna. Virkt fíkniefnaeftirlit var á þjóðveginum við Akureyri þar sem kannað var með gesti á leið í bæinn og einnig voru bifreiðar stöðvaðar innanbæjar. Lögreglumenn óskuðu eftir því að fá að leita sumar af þeim bifreiðum sem stöðvaðar voru með fíkniefnaleitarhundi og var það í flestum tilfellum auðsótt mál af hálfu ökumanna sem í meirihluta tilfella höfðu ekkert að fela. Einnig var eftirlit með fíkniefnaleitarhundi á tjaldsvæðum og í miðbæ Akureyrar.
Aðfaranótt laugardagsins voru lögreglumenn við eftirlit á tjaldsvæðinu við Þórunnarstræti. Þegar fíkniefnaleitarhundur sýndi tjaldi á svæðinu mikinn áhuga og bönkuðu lögreglumenn þar upp á og komu að einum tjaldgestanna við kannabisreykingar. Við leit í tjaldinu framvísaði gesturinn smáræði af kannabisefnum til viðbótar.
Að kvöldi laugardags stöðvuðu sérsveitarmenn tvo menn á fertugsaldri á bifreið á Akureyri. Ökumaðurinn heimilaði að fíkniefnaleitarhundur fengi að hlaupa hring í bifreiðinni og um leið og hundurinn fór inn í hana vísaði hann lögreglumönnum á pakkningu sem reyndist innihalda um 7 grömm af amfetamíni og 5 grömm af kókaíni. Mennirnir voru því báðir handteknir og fluttir á lögreglustöð þar sem ökumaðurinn féll á fíkniefnaprófi og er því grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Í framhaldinu voru framkvæmdar leitir samtímis á dvalarstöðum mannanna. Á dvalarstað ökumannsins vísaði fíkniefnahundur á poka sem reyndist innihalda rúm 30 grömm af amfetamíni til viðbótar og einnig fundust á staðnum hlutir til að vigta niður og pakka fíkniefnum. Við skýrslutökur viðurkenndi ökumaðurinn eign sína á fíkniefnunum og að hafa ætlað hluta þeirra til sölu.
Á sunnudagskvöld var framkvæmd húsleit í íbúð á Akureyri þar sem fundust um 10 grömm af hassi. Drengur um tvítugt var handtekinn vegna málsins og við skýrslutökur viðurkenndi hann að hafa ætlað efnin til sölu. Öll málin teljast upplýst. Lögreglan minnir á upplýsingasímsvarann 800-5005 og netfangið info@rls.is þar sem fólk getur komið upplýsingum um fíkniefnamisferli nafnlaust á framfæri.