Setja upp vinnslubúnað í Oddeyrina EA

Mikið hefur verið að gera hjá Slippnum undanfarnar vikur, krefjandi verkefni sem reynt hafa á starfs…
Mikið hefur verið að gera hjá Slippnum undanfarnar vikur, krefjandi verkefni sem reynt hafa á starfsfólkið. Nú tekur við tveggja vikna sumarleyfi og svo bretta menn upp ermar á ný í byrjun ágúst með nýjum verkefnum að takast á við.

Texti: Margrét Þóra Þórsdóttir

maggath61@simnet.is

 

  • Góð verkefnastaða hjá Slippnum fram eftir hausti

  • Mikil törn að baki með tilheyrandi álagi á starfsfólk sem nú fær kærkomið sumarfrí

„Það hefur mikið verið að gera hjá okkur síðustu vikur og verkefnastaðan síðsumars og fram eftir hausti er ágæt. Við höfum þó svigrúm til að bæta við okkur verkefnum,“ segir Magnús Blöndal Gunnarsson markaðsstjóri hjá Slippnum Akureyri.

Magnús Blöndal

Uppsjávarskipin komu hvert á eftir öðru í viðhald í vor og fram eftir sumri. Nú tekur við tveggja vikna sumarlokun, en Magnús segir að mikil törn sé að baki með tilheyrandi álagi á starfsfólk sem taki kærkomnu sumarleyfi fegins hendi. „Síðustu vikur hafa verið krefjandi og reynt á mannskapinn sem hefur staðið sig frábærlega þannig að það eiga allir skilið að fá smá frí,“ segir hann.

Setja upp vinnslubúnað í Oddeyrina

Eitt þeirra verka sem hafist verður handa við eftir fríið er uppsetning á vinnslubúnaði í Oddeyrina, nýtt skip Samherja sem kom til landsins nýverið skipi sem hefur getu til að geyma lifandi fisk í tönkum.

„Þetta er eitt mest spennandi verkefni í alþjóðlegum sjávarútvegi um þessar mundir og mikil eftirvænting eftir þvi að skipið fari á veiðar. Við höfum hannað og smíðað allan búnað fyrir vinnsludekkið og munum hefja uppsetningu á honum strax eftir frí, þar á meðal er ný blóðgunarlausn sem mun tryggja framúrskarandi aflameðferð,“ segir Magnús.

Hafa kynnt hugmyndir um byggingu málingarhúss

Slippurinn Akureyri er nú að kanna möguleika á því að reisa málningarhús sem staðsett yrði við hlið flotkvíar Slippsins. Skip myndu þá sigla inn í húsið sem yrði 32 metra hátt. Þar yrði hægt væri að framkvæma helstu viðgerðir á þeim sem og að mála þau. Bygging slíks húss hefur verið til skoðunar  í nokkurn tíma hjá fyrirtækinu en nú vill Slippurinn ráðast í undirbúningsvinnu við húsið. Hafa forsvarsmenn Slippsins kynnt hugmyndirnar fyrir skipulagsyfirvöldum á Akureyri og Hafnasamlagi Eyjafjarðar.

„Með þessari fjárfestingu erum við að koma til móts við kröfur viðskiptavina okkar um að sinnt málingarvinnu og almennum viðgerðum án veðuráhrifa allt árið um kring og stórtbætir vinnuaðstöðu starfmanna. Einnig gefur þetta okkur mikið forskot í þeirri hörðu samkeppni sem er hér heima og erlendis í skipaþjónustu,“ segir Magnús.


Athugasemdir

Nýjast