Sérnám í hjúkrun við SAk

Á myndinni er Valdís Ösp hjúkrunarfræðingur ásamt Kristínu Ósk Ragnarsdóttur deildarstjóra bráðamótt…
Á myndinni er Valdís Ösp hjúkrunarfræðingur ásamt Kristínu Ósk Ragnarsdóttur deildarstjóra bráðamóttöku SAk. Mynd SAk

Leiðsagnarár til sérfræðiviðurkenningar eða „sérnám“ í hjúkrun er nú í boði árlega á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Markmið sérnáms er að hjúkrunarfræðingar fái tækifæri til að þróa sérfræðiþekkingu á ákveðnu klínísku fræðasviði sem nýtist skjólstæðingum SAk. Að því tilefni skrifuðu tveir hjúkrunarfræðingar ásamt deildarstjórum, fræðslustjóra SAk og framkvæmdastjóra hjúkrunar undir samning á dögunum um að hefja sitt sérnám við SAk.

„Þetta tækifæri styrkir stöðu hjúkrunar á SAk til muna og eflir starfið í heild sinni. Með þessu erum við að leggja enn meiri áherslu á framgang sérfræðiþekkingar í hjúkrun á sjúkrahúsinu sem mun skila sér í auknum gæðum hjúkrunar,“ segir Hulda Sigríður Ringsted framkvæmdastjóri hjúkrunar.

Sérnámshjúkrunarfræðingar fá í samráði við deildarstjóra allt að 20% svigrúm af sínum vinnutíma yfir vetrarmánuðina til að vinna að markmiðum sínum í sérfræðináminu. Skipuð er tveggja til þriggja manna leiðsagnarnefnd fyrir hvern nema. Í henni á sæti að lágmarki einn sérfræðingur í hjúkrun en aðrir geta verið heilbrigðisstarfsmenn sem tengjast áherslum á klínísku sviði nemans.

Meginþættir sérfræðinámsins eru klínískt starf, fræðsla, ráðgjöf, rannsóknir, gæða- og þróunarstörf. Einnig er rík áhersla á leiðtoga- og forystuhlutverk sérfræðinga í hjúkrun.

  • Í fyrri hluta sérfræðinámsins er lögð áhersla á klínískt starf, öflunar sérþekkingar, fræðslu og gæðavinnu.

  • Í seinni hluta námsins er lögð aukin áhersla á fræðilega vinnu, m.a. rannsóknarvinnu og innleiðingu á nýjungum í klínísku starfi í samræmi við bestu þekkingu sem völ er á.

Gert er ráð fyrir að hluta sérfræðinámsins sé rannsókna- og fræðastarf í víðum skilningi, s.s. virk þátttaka í rannsókn á viðkomandi sérsviði, greinaskrif úr rannsóknarverkefni, gerð rannsóknaráætlunar, þátttaka í gerð gagnreyndra leiðbeininga, þar með talið gæðaskjala og þátttaka í Vísindadegi SAk.

Heimasíða SAk sagði frá.


Athugasemdir

Nýjast