September og Ég elska þig samt ?

Á morgun  opna þrír listamenn sýningu í Ketilhúsinu á Akureyri. Þetta eru þau Bjarni Sigurbjörnsson, Jón Óskar og Ragnheiður Guðmundsdóttir.

Þeir Bjarni og Jón Óskar taka hér aftur upp þráðinn með því að vinna saman stór og voldug málverk fyrir sýninguna September en hún er að mestu leyti unnin á staðnum vikuna fyrir opnun og vísar titillinn til þess. Ólíkir hugarheimar og efnistök mætast í myndrænum áflogum og leiftrandi sköpunargleði sem einkennir verk þeirra beggja – annars vegar fígúratífur gauragangur Jóns Óskars og hins vegar abstrakt beljandi Bjarna – svo úr læðingi leysast þverstæðukenndir kraftar.

Á efri hæð Ketilhúss sýnir Ragnheiður Guðmundsdóttir undir yfirskriftinni Elska ég mig samt? þar sem konur, sár þeirra og saga eru viðfangsefnið. Líta má á verkin sem heilunarferli líkamssára sem tilkomin eru vegna tilfinningalegs sársauka og höfnunar á eigin löngunum. Líkaminn verður sjúkur og líkamskvillar ágerast við ófullnægt og bælt tilfinningalíf. Við því er "aðeins ein leið til heilunar, [en] það er fyrirgefning og ást... allt annað er blekking." (Guðni Gunnarsson)

Sýningin stendur til 27. október og er opin kl. 13-17 alla daga nema mánudaga og þriðjudaga. Aðgangur er ókeypis.

Nýjast