Sendiherra USA til Húsavíkur í dag

Robert C. Barber, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, sækir Húsavík heim í dag. Hér ætlar hann að hitta ýmsa aðila sem hann hefur haft samskipti við og átt samstarf við, m.a. Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóra Norðurþings og nemendur sem tóku þátt í New Bedford verkefninu fyrr á árinu. Þá heimsækir hann Hvalasafnið, fundar með aðilum í hvalaskoðun á svæðinu og lítur inn í Könnunarsögusafnið.
Og síðast en ekki síst ætlar hann að kaupa Neyðarkallinn af björgunarsveitinni Garðari, en Barber hefur lagt það í vana sinn að kaupa Neyðarkallinn og styðja þannig við bakið á íslensku björgunarsveitunum.
Eftir að úrslit forsetakosninganna í Bandaríkjunum urðu ljós má segja að þetta sé kveðjuheimsókn hjá bandaríska sendiherranum, en sá háttur er á vestra að allir sendiherrar í þjónustu Bandaríkjanna segja embætti sínu lausu þegar nýr forseti er kjörinn. Það er svo undir nýja forsetanum komið hvort hann taki uppsögnina gilda eður ei.
Og þar sem Robert C. Barber var yfirlýstur stuðningsmaður Demókratans og sitjandi forseta, Barak Obama, má ljóst þykja að hann muni láta af embætti. -JS/epe