Selfoss lagði slaka KA-menn að velli

Selfoss lagði KA að velli í kvöld, 2:1, í 1. deild karla í knattspyrnu á Akureyrarvelli. Selfoss hafði mikla yfirburði í leiknum í kvöld en heimamenn voru arfaslakir í kvöld og sigur gestanna síst of stór. Sandor Matus markvörður KA stóð hins vegar sína vakt vel og bjargaði því sem bjargað varð og varði nokkrum sinnum úr dauðafæri hjá Selfyssingum. Hann gat þó ekki komið í veg fyrir mörkin tvö hjá þeim Jóni Daði Böðvarssyni og Viðari Erni Kjartanssyni. KA sýndi smá lit í lokin og Davíð Rúnar Bjarnason náði að klóra í bakkann fyrir heimamenn með marki í uppbótartíma.

Fyrsta markið kom á 32. mínútu og þar var Jón Daði á ferðinni er hann skoraði af stuttu færi í teignum og kom gestunum yfir.  Markið virtist hins vegar vera ólöglegt vegna rangstöðu og voru KA-menn allt annað en sáttir og höfðu sennilega mikið til síns máls.

Seinna mark Selfyssinga kom á 65. mínútu. Viðar Örn Kjartansson lék þá með knöttinn á vítateigslínunni og lét vaða á markið og boltinn söng í bláhorninu hægra megin. Staðan 0:2. KA-menn sýndu smá lit í restina en Davíð Rúnar Bjarnason minnkaði muninn með marki á uppbótartíma. Lokatölur 1:2.

Selfoss því með mikilvæg þrjú stig í baráttunni um annað sætið. KA er hins vegar ekki enn laust við falldrauginn með ósigrinum í kvöld og umhugsunarefni fyrir Gunnlaug Jónsson þjálfari liðsins hvernig liðið dettur niður á milli leikja.

Nýjast