Í frétt á vef Akureyrarbæjar segir að saltmagn á götum bæjarins sé óverulegt og kostir við saltnoktun séu fleiri en gallarnir. Eins fram kom í frétt Vikudags fyrr í dag og má sjá hér stendur yfir undirskriftasöfnun þar sem skorað er á Akureyrarbæ að hætta að salta götur og nota frekar sand. Yfir 500 manns hafa skrifað undir áskorunina sem má sjá hér.
Á vef bæjarins segir: "Sérstökumhálkuvörnum er beitt þar sem aðstæður eru sérlega slæmar. Þá er notað saltblandað malarefni, kornastærð 2-8 mm og salthlutfallið er um 5%. Ekki er notað hreint salt lengur til hálkuvarna heldur er allt hálkuvarnarefni saltblandað, hvort heldur það er notað á götur, gönguleiðir eða bílaplön.
Á síðasta ári voru notuð um 65 tonn af salti til blöndunar á hálkuvarnarefninu en ef horft er til hlutfallslegrar stærðar gatnakerfisins miðað við Reykjavík þá hefði átt að nota 1.786 tonn á Akureyri.
Með því að saltblanda malarefnið verður virkni þess mun meiri en ella. Það verður til þess að minna þarf af malarefni til hálkuvarna en áður og þar af leiðir að mun minna myndast af svifryki út frá hálkuvörnum en áður. Auk þess er nauðsynlegt að saltblanda hálkuvarnarefnið svo það verði meðfærilegra í sanddreifurum og fyrir aðra þá sem nota það. Kostirnir eru því fleiri en gallarnir," segir í frétt á vef Akureyrarbæjar.
Þá minnir Akureyrarbær á að íbúar geta sótt sér saltblandaðan sand á nokkrum stöðum í bænum.