Segja brennsluofn hafa neikvæð áhrif á ímynd og ásýnd Oddeyrarinnar
Hverfisnefnd Oddeyrar á Akureyri hugnast ekki að fá brennsluofn í hverfið. Norðlenska hefur beðið um starfsleyfi hjá Heilbrigðiseftirlitinu en fyrirtækið er m.a. með starfsstöð á Eyrinni. Eins og sagt var frá í blaðinu fyrr í sumar hafa kjötvinnslur á Húsavík og Kópaskeri fengið leyfi fyrir nýjum brennsluofnum og fyrirtæki á Akureyri hafa einnig sótt um slík leyfi. Auk Norðlenska er Heilbrigðiseftirlitið með umsókn frá sláturhúsinu B. Jensen til meðferðar.
Hverfisnefnd Oddeyrar ályktar að þrátt fyrir ströng skilyrði og góðan vilja Heilbrigðiseftirlitsins eigi þessi búnaður ekki erindi á þessu svæði m.a. vegna nálægðar við íbúðabyggð og fiskvinnslu.
„Auk þess sem þetta hefur neikvæð áhrif á ímynd og ásýnd svæðisins; þarna koma t.d. skemmtiferðaskip að landi auk þess sem lyktarmengun er fyrirsjáanleg. Þá telur nefndin þessi áform alls ekki í samræmi við fyrirhugað framtíðarskipulag svæðisins, þ.s. Íbúðasvæði færist lengra til austurs,“ segir í ályktun hverfisnefndarinnar.
Brennsluofnar eru taldir líklegri en aðrir til að bera með sér riðu og aðra smitsjúkdóma, því er mikilvægt að meðhöndlun þeirra sé rétt. Hingað til hefur úrgangur af þessu tagi verið urðaður. Brennsluofnar af þessu tagi hafa verið nokkuð umdeildir en sl. vetur lýsti Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, áhyggjum sínum af því að útlit væri fyrir að brennsluofnarnir yrðu allt að sjö í landshlutanum, í stað þess að sveitarfélög sameinuðust um einn ofn. Það væri ekki umhverfisvænt að fjölga þeim um of og það gæti einnig leitt til þess að fyrirtæki freistist til að brenna meiri úrgangi en heimild kveði á um.