Segja algjört ráðaleysi ríkja innan veggja SÍ um framtíð hjúkrunarheimila

Séð yfir Lögmannshlíð á Akureyri.
Séð yfir Lögmannshlíð á Akureyri.

Bæjarstjórn Akureyrarbæjar lýsir yfir miklum vonbrigðum með seinagang Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) vegna yfirfærslu á rekstri Öldrunarheimila Akureyrar (ÖA). Bæjaryfirvöld ákváðu í lok apríl á síðasta ári að endurnýja ekki samning við SÍ um rekstur ÖA sem rann út 31. desember sl. og var stofnuninni og heilbrigðisráðherra tilkynnt um ákvörðun bæjarins 5. maí 2020. Málið var til umræðu á bæjarstjórnarfundi í gær.

Segir í bókun bæjarstjórnar að þessi tilkynning hafi verið send í tíma þannig að SÍ gæfist nægt ráðrúm til að undirbúa yfirfærsluna.

„Algjört ráðaleysi virðist hins vegar ríkja innan veggja SÍ um hvað gera skuli við hjúkrunarheimili í þeim sveitarfélögum sem hafa ákveðið að endurnýja ekki samninga um rekstur. Þar sem ljóst var að yfirfærslan myndi ekki klárast fyrir síðastliðin áramót tóku bæjaryfirvöld ákvörðun um að framlengja samninginn til loka aprílmánaðar og veita þar með SÍ svigrúm til að klára málið. Það var svo fyrst nú í lok janúar sem SÍ auglýstu eftir nýjum rekstraraðila. Algjör óvissa er því enn ríkjandi um hver kemur til með að reka heimilin frá og með 1. maí nk. en mikilvægt er að þeirri óvissu verði eytt án tafar vegna allra þeirra sem hlut eiga að máli þ.e. íbúa, aðstandenda og ekki síst starfsfólks sem á rétt á að njóta öryggis og fyrirsjáanleika í starfsumhverfi sínu," segir í bókun bæjarstjórnar.


Athugasemdir

Nýjast