Segir þörf á málefnalegri umræðu um lausagöngu katta

Eva Hrund Einarsdóttir.
Eva Hrund Einarsdóttir.

Eva Hrund Einarsdóttir, bæjarfulltrúi D-listans á Akureyri, á von á því að málefni um lausagöngu katta verði tekin fyrir í bæjarstjórn í haust. Málið hefur verið á milli tannanna á fólki en pistill um lausagöngu katta sem Snævarr Örn Georgsson skrifaði á vef Vikublaðsins fyrir skemmstu vakti gríðarlega athygli og mikil viðbrögð. Benti Snævarr m.a. á í pistli sínum að kettir drepi hundruði ef ekki þúsundi fugla á hverju ári og að honum hefði verið ráðlagt að setja net á barnavagninn hjá sér þegar barnið hans svaf úti til að verjast köttum. „Er þetta í alvörunni í lagi?“ skrifaði Snævarr.

Bæjarbúar ekki sammála

Eva Hrund segir að þetta sé eitt af þeim málum sem bæjarbúar hafi ekki verið sammála um. „Við verðum að fara að finna viðunandi lausn í málefnum gæludýrahalds sem snúa að kattahaldi í bæjarlandinu sem sátt er um á meðal íbúa sveitarfélagsins. Fyrir tveimur árum síðan samþykktum við í bæjarstjórn að fela Umhverfis - og mannvirkjasviði að koma með tillögu að takmörkunum en þær hafa ekki enn komið fram. Hugsanlega vegna þess að þetta er ekki einfalt mál.“ Í síðustu bókun ráðsins frá því í maí sl. segir: „Umhverfis- og mannvirkjaráð ályktar að lögð verði áhersla á bætta nýskráningu katta og þá til að mynda þá staðreynd að örmerking hjá dýralækni leiði ekki sjálfkrafa til skráningar hjá sveitarfélaginu. Einungis eru tæplega 150 kettir skráðir á Akureyri og forsenda stærri ákvarðana er að sjá umfangið. Einnig er lagt til að auglýsa og fræða um áhrif af lausagöngu katta á fuglalíf á varptíma og endurskoða svo þær samþykktir sem í gildi eru.“

Mikilvægt þykir að finna viðunandi lausn í málefnum gæludýrahalds sem
snúa að kattahaldi í bæjarlandinu. Mynd/Akureyri.is.

Segir líklegt að lausaganga verði bönnuð á endanum

Eva Hrund segir að þetta yrði skref í rétta átt en er þó á því að það þurfi að taka þetta skrefinu lengra ef vel á að vera. „Líklega verður lausaganga katta bönnuð á endanum en það verður hins vegar að gerast í hægum skrefum. Við bönnum ekki lausagöngu katta einn, tveir og þrír og þess vegna þurfum við að hefja samtalið og taka málefnalega umræðu um þetta mál við bæjarbúa. Ljóst er að skráningum katta, sem er skylda samkvæmt samþykkt Akureyrarbæjar um kattahald, er verulega ábótavant. Ég er fullviss um að þeir gæludýraeigendur sem halda ketti vilji gera vel. Mikilvægt er því að þeir sem halda ketti skrái gæludýr sín þannig að hægt sé að leggja mat á umfang kattahalds í bænum. Mikilvægt er að gögn sem gefa rétta mynd af stöðunni liggi til grundvallar til þess að umræða um þessi mál fari fram með sanngjörnum hætti,“ segir Eva Hrund.

Mikill meirihluti á móti lausagöngu

Í skoðakönnun Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri (RHA) um lausagöngu katta árið 2018 kom fram að mikill meirihluti bæjarbúa á Akureyri vilji banna lausagöngu katta í bænum. Alls voru tæplega 43% mjög sammála og 14,5% frekar sammála því að banna ætti lausagöngu katta, en 28% ósammála. Tæplega 15% svöruðu hvorki né. Samkvæmt reglugerð Akureyrarkaupstaðar er kattahald bannað í Grímsey og mega kettir hvorki dvelja í Grímsey né koma í heimsóknir. Þá er lausaganga katta bönnuð í Hrísey.

 

 

 

 

 


Nýjast