Segir brýnt að fjölga slökkviliðsmönnum

Ólafur Stefánsson slökkviliðsstjóri á Akureyri segir brýnt að fjölga föstum starfsmönnum slökkviliðsins. Á undanförnum sex árum hefur þurft að fækka um þrettán starfsmenn hjá Slökkviliði Akureyrar vegna niðurskurðar hjá Akureyrarbæ. Fastir starfsmenn hjá slökkviliðinu í dag eru 25 og 30 starfsmenn í hlutastarfi með Hrísey og Grímsey. Þetta kemur fram ítarlegu viðtali við Ólaf í nýjasta tölublaði Vikudags.

„Við höfum þurft að hagræða með því að sameina störf og færa til. Þetta hefur gerst í þrepum. Árið 2011 voru 38 fastir starfsmenn í slökkviliðinu en þá sáum við einnig um slökkviliðsþjónustuna á Akureyrarflugvelli. Þegar Isavia sagði þeim samningi upp var starfsmönnuðum fækkað niður í 28. Síðan hefur smám saman verið að kroppa meira af okkur,“ segir Ólafur.

Spurður hvernig slökkviliðinu hefur gengið að mæta þessum niðurskurði þakkar Ólafur fyrst og fremst góðu starfsfólki fyrir. „Þetta hefur kostað aukið álag á starfsmenn og við megum ekki við miklu. Ef einhver slasast eða veikist lendum við í vandræðum. Þetta gengur því ekki til lengdar,“ segir Ólafur.

Spurður hvort slökkviliðið sé komið að þolmörkum vill Ólafur ekki taka svo djúpt í árina en segist hafa óskað eftir fleiri starfsmönnum við bæjaryfirvöld. „Við erum brothættir og það þarf lítið að gerast svo við lendum í vandræðum. Það er mín skoðun að það sé nauðsynlegt að fjölga í slökkviliðinu en það er í skoðun hjá bæjaryfirvöldum.“ 

Nýjast