Segðu já við lífið

„Í fínu formi“, sem er Kór eldri borgara á Akureyri hóf dagskrána undir stjórn Valmar Väljaots.
„Í fínu formi“, sem er Kór eldri borgara á Akureyri hóf dagskrána undir stjórn Valmar Väljaots.

  Í síðustu viku fór fram málþing í Háskólanum á Akureyri undir yfirskriftinni „Segðu já við lífið“. heppnaðist í alla stað vel. Málþingið var samvinnuverkefni Félags eldri borgara á Akureyri og Heilbrigðisvísindasviðs HA. Vel á þriðja hundrað þátttakendur áttu þar saman lærdómsríkan eftirmiðdag undir stjórn Valgerðar Jónsdóttur hjúkrunarfræðings M.Sc.

Málþingið hófst með söng frá frá kórnum „Í fínu formi“, sem er Kór eldri borgara á Akureyri undir stjórn Valmar Väljaots.

Ýmis fróðleg erindi voru flutt og má þar nefna hvað gerir vatnið fyrir kroppinn þar sem Dr. Stefán B. Sigurðsson, prófessor HA fræddi gesti um mikilvægi vatnsbúskapar líkamans. Olga Ásrún Stefánsdóttir, fjölskylduráðgjafi MA sagði frá rannsókn sinni um farsæld og frelsi efri áranna sem tengist reynslu hjóna af starflokum. Hafdís Hrönn Pétursdóttir iðjuþjálfi á Kristnesi talaði um hvað er ökumat, í hvaða tilgangi það er gert og framkvæmt. Málþing FEB á Akureyri

Síðan fluttu „Spékoppar“, leikhópur úr Félagi eldri borgara ásamt Sögu Jónsdóttur leikara bráðskemmtilega leikþætti um akstur eldri borgara undir heitinu ,,Auðvitað keyri ég“!

Að því búnu talaði Dr. Árún Kristín Sigurðardóttir, prófessor HA um það hvort líf með sykursýki sé hundalíf. Arna Rún Óskarsdóttir, öldrunarlæknir á SAK flutti erindi um þætti sem hafa áhrif á hvernig fólk getur lifað vel og lengi.

Mikil gleði var einkennandi á þinginu og fjölluðu eldri borgarar um málshætti á líflegan hátt og spurðu meðal annars hvort söngurinn gæfi líf í sál, hvort hláturinn lengi lífið eða hvort maður væri manns gaman og hvort rétt væri að morgunstund gæfi gull í mund? 

Að endingu vakti Dr. Sigrún Sveinbjörnsdóttir, prófessor HA fólk til umhugsunar með erindi um lífið og tilveruna. Hún lagði áherslu á það að hver einstaklingur ræður því hvernig hann hugsar. Hún hvatti einnig gesti til að hafa hugrekki til að takast á við þau óvæntu og fjölbreyttu verkefni sem lífið færir hverjum og einum.

Haukur Ingibergsson formaður Landssambands félags eldri borgara ávarpaði þingið. Hann lýsti yfir ánægju með samvinnu Háskólans á Akureyri og Félags eldri borgara á Akureyri að sýna framtak í að vekja athygli á málefnum eldri borgara. Málþinginu sleit Haukur Halldórsson, formaður félags eldri borgara á Akureyri.

 

 

Nýjast