Markmiðið var að komast áfram í úrslitakeppnina og þar sem það hafðist ekki er ég ekki alveg sáttur við tímabilið, segir Guðlaugur Arnarsson, þjálfari KA/Þórs, í samtali við Vikudag. KA/Þór endaði í sjöunda sæti N1-deildar kvenna í handknattleik með níu stig og var var hársbreidd frá því að komast í úrslitakeppnina. KA/Þór tapaði fyrir liði Vals í lokaumferðinni og Grótta hélt því sjötta sætinu og fer áfram.
Við vorum svakalega nálægt þessu. Við byrjuðum tímabilið hins vegar illa og gerðum okkur erfiðara fyrir. Það eru tveir tapleikir á heimavelli sem sitja í manni eftir veturinn, gegn Gróttu og Haukum. Þetta eru lið sem við vorum að berjast við og blóðugt þegar uppi er staðið að ná ekki stigi eða stigum á móti þeim hérna heima, segir Guðlaugur, en KA/Þór tapaði báðum þessum leikjum með einu marki.
Ég er hins vegar mjög sáttur við þróunina á liðinu eftir áramótin og með þessari frammistöðu sem við sýndum í lokaleikjunum er full ástæða til að horfa björtum augum á kvennahandboltann á Akureyri í framtíðinni.
Guðlaugur gerði eins árs samning við KA/Þór fyrir veturinn og segir hann óráðið hvort hann verði áfram með liðið. Ég er jákvæður fyrir því að halda áfram en það er of snemmt að segja til um hvað verður, sagði hann.
.