Sanngjarn sigur HK gegn Akureyri

Atli Hilmarsson og hans menn í Akureyri hafa eflaust um mikið að ræða eftir leikinn í dag.
Atli Hilmarsson og hans menn í Akureyri hafa eflaust um mikið að ræða eftir leikinn í dag.

Vandræðagangur Akureyrar í N1-deild karla í handknattleik heldur áfram en liðið tapaði í dag gegn HK í Digranesi í lokaleik sjöttu umferðar deildarinnar. Lokatölur urðu 30-27, en HK hafði eins marks forystu í hálfleik, 16-15. Björn Ingi Friðjófsson í marki HK reyndist Akureyringum erfiður en hann átti mjög góðan leik fyrir heimamenn, sem og hornamaðurinn Bjarki Már Elísson sem skoraði grimmt. Varnarleikur beggja liða var slakur heilt yfir í leiknum en norðanmenn áttu einnig í mesta basli í sóknarleiknum sem var oft á tíðum klaufalegur og tilviljunakenndur. Sigur HK-inga var sanngjarn og ljóst að norðanmenn verða að fara vel yfir sín mál í stuttri pásu sem framundan er í deildinni.

Jafnræði var  með liðunum fyrstu mínúturnar og allt að stöðunni 3-3. Þá settu HK-menn í annan gír og náðu þriggja marka forystu, 6-3 og komust svo fjórum mörkum yfir, 9-5, eftir tæplega korters leik. Akureyringar hleyptu þeim ekki lengra frá sér og tókst að jafna og komast yfir, 12-11, í fyrsta sinn í leiknum. Jafnt var í tölum út hálfleikinn en HK leiddi með einu marki í leikhlé, 16-15.

Fyrirliðinn Heimir Örn Árnason var mættur aftur í lið Akureyrar eftir hnémeiðsli og eru það góð tíðindi fyrir norðanmenn að hann sé að komast á kreik. Bjarki Már Elísson var öflugur í sókn og hraðaupphlaupum hjá HK í fyrri hálfleik og skoraði grimmt. Sveinbjörn Pétursson kom sterkur inn í síðari hluta hálfleiksins í marki Akureyrar eftir að hafa verið lengi í gang. Á hinum enda vallarins var Björn Ingi hins vegar að verja vel í marki HK.

HK hóf seinni hálfleikinn af krafti og skoruðu heimamenn fyrstu tvö mörkin í seinni hálfleik og juku jafnt og þétt forskotið sem varð orðið sex mörk, 26-20, þegar seinni hálfleikurinn var hálfnaður. HK var með öll völd á leiknum á þessum tímapunkti og bæði varnar-og sóknarleikur Akureyringa slakur.  Stefán Guðnason kom inn á í mark Akureyrar og gaf liðinu vítamínssprautu með góðum markvörslum. Norðanmenn náðu þó ekki að nýta sér það sem skyldi og HK landaði að lokum sanngjörnum sigri, 30-27.

HK fer með sigrinum upp að hlið FH með 9 stig í 3-4. sæti. Hins vegar er Akureyri að dragast aftur úr í sjötta sætinu með þrjú stig. Liðið á tvo heimaleiki í næstu leikjum og ljóst að þar þurfa norðanmenn nauðsynlega að snúa genginu sér í hag, ætla þeir sér að eiga möguleika á fjórum efstu sætunum í vor.

Mörk HK: Bjarki Már Elísson 10/2, Hörður Másson 5, Ólafur Bjarki Ragnarsson 4, Tandri Már Konráðsson 4, Atli Ævar Ingólfsson 2, Leó Snær Pétursson 2, Ólafur Víðir Ólafsson 1, Vilhelm Gauti Bergsveinsson 1.
Varin skot: Björn Ingi Friðþjófsson 19/1.

Mörk Akureyrar: Bergvin Gíslason 6, Bjarni Fritzson 6/3, Guðmundur Hólmar Helgason 5, Halldór Tryggvason 5, Geir Guðmundsson 1, Jón Heiðar Sigurðsson 1, Guðlaugur Arnarson 1, Daníel Einarsson 1.
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 7/1, Stefán Guðnason 6.

Nýjast