Sannfærður um að mjög margir borgarbúar vilja hafa Reykjavíkurflugvöll áfram á sínum stað

Oddur Helgi Halldórsson formaður bæjarráðs Akureyrar segir að Reykjavíkurflugvöllur eigi að vera áfram í Vatnsmýrinni. "Afstaða mín til Reykjavíkurflugvallar er skýr, það er hlutverk höfuðborgarinnar að sjá til þess að það sé lífvænlegt á landsbyggðinni. Ég minni á að helmingur af skatttekjum landsbyggðarinnar verður eftir í Reykjavík. Þar er öll stjórnsýslan, þar á reisa hátæknisjúkrahús og við eigum því heimtingu á góðu aðgengi til Reykjavíkur," segir Oddur.  

"Það er líka full ástæða fyrir Reykvíkinga að átta sig á því að þetta er stór vinnustaður sem skiptir þá miklu máli. Ég er líka sannfærður um að mjög margir borgarbúar vilja hafa völlinn áfram á sínum stað. Það er eitthvert lopapeysukommalið sem sér fyrir sér að geta setið þarna fyrir utan kaffihús, eða fjárfestar sem vilja byggja, sem vilja völlinn burt. Það er bara ekki þannig og slíkt myndi heldur ekki bæta lífið fyrir hinn almenna borgara á einn eða neinn hátt," segir Oddur.

Hann segir að samþykkt hafi verið í bæjarstjórn í nóvember sl., að láta vinna skýrslu um afleiðingar þess fyrir Akureyri og þá sem nýta sér Akureyrarflugvöll að Reykjavíkurflugvöllur verði lagður af í núverandi mynd. Sérstaklega verði litið til öryggissjónarmiða, sem og efnahagslegra áhrifa við gerð skýrslunnar. "Bæjarstjórinn okkar hefur verið í sambandi við aðra bæjarstjóra á landsbyggðinni, fulltrúa í ráðuneytinu og aðra hlutaðeigandi varðandi þessi mál."

Nýjast