Sannfærandi sigur KA gegn Þrótti

KA vann í kvöld sinn þriðja leik í röð í 1. deild karla í knattspyrnu er liðið lagði Þrótt R. 4:1 á Akureyrarvelli. KA-menn voru mun betri í kvöld og var sigurinn fyllilega verðskuldaður. Heimamenn léku einum manni fleiri síðasta hálftímann eftir að Hallur Hallsson fékk að líta rauða spjaldið. Fyrirliði KA, Haukar Heiðar Hauksson, var á skotskónum í kvöld en hann skoraði tvö fyrstu mörk heimamanna og þeir Guðmundur Óli Steingrímsson og Daniel Howell sitt markið hvor. Mark Þróttar skoraði Sveinbjörn Jónasson.

Haukur Heiðar kom KA yfir eftir hálftíma leik. Elmar Dan Sigþórsson átti skalla í slá en Haukur fylgdi vel á eftir og skallaði boltann í netið. Haukur var svo aftur réttur maður á réttum stað á 42. mínútu er hann skoraði af stuttu færi og KA hafði 2:0 yfir í hálfleik.

Samvinna þeirra bræðra, Hallgríms Mar og Guðmundar Óla Steingrímssona, skilaði KA þriðja markinu á 75. mínútu. Hallgrímur átti þá góða sendingu inn á Guðmund sem var sloppinn einn í gegn og skoraði með góðu skoti í bláhornið. Staðan 3:0.

Þróttur náði hins vegar að klóra í bakkann einum manni færri aðeins tveimur mínútum síðar. Gestirnir hreinlega spændu þá upp vörn KA sem var algjörlega sofandi og endaði með því að Sveinbjörn Jónasson skoraði auðveldlega. Það var hins vegar KA sem átti síðasta orðið í leiknum. Dan Howell skoraði þá fjórða mark heimamanna eftir sendingu frá Boris Lumbana. Lokatölur á Akureyrarvelli, 4:1.

Gunnlaugur Jónsson þjálfari KA var að vonum sáttur í leikslok.

„Þetta er allt á réttri leið og það er stígandi í þessu. Við áttum leikinn algjörlega í kvöld og þetta var mjög sannfærandi. Ég var sérstaklega sáttur við fyrri hálfleikinn en ég er ósáttur við kæruleysið sem við sýndum þegar þeir skoruðu. En ég er virkilega ánægður með stigin þrjú og leikinn heilt yfir,“ sagði Gunnlaugur. 

Með sigrinum í kvöld er KA komið með 20 stig í áttunda sæti deildarinnar, en Þróttur hefur 23 stig í fimmta sæti.

Nýjast