Eftir að hafa setið í bæjarstjórn í eitt kjörtímabil hef ég, nú í aðdraganda kosninga, mikið velt fyrir mér hvort taka eigi upp ný vinnubrögð við stjórnun bæjarins. Hvernig best er að málum sé háttað innan bæjarstjórnar og þá m.a. hvort þörf sé að skipta bæjarstjórn upp í meiri- og minnihluta.
Þessar vangaveltur mínar eru byggðar á reynslu minni af yfirstandandi kjörtímabili auk samtala sem ég hef átt við einstaka bæjarfulltrúa og almenna kjósendur um þessi mál.
Eins og gengur og gerist í sveitarstjórnarpólitíkinni hefur talsverð samvinna verið innan bæjarstjórnar og nefnda bæjarins á yfirstandandi kjörtímabili. T.a.m. viðhélt L-listinn vinnubrögðum, sem tekin voru upp í kjölfar efnahagshrunsins, og fólust m.a. í að vinna við gerð fjárhagsáætlana var samstarfsverkefni allra flokka í bæjarstjórn. Tel ég að okkur í bæjarstjórn hafi um margt tekist vel til á kjörtímabilinu þótt ég telji að ýmislegt hafi betur mátt fara.
Þarf meirihluta?
Vissulega þarf bæjarstjórn að setja fram stefnuskrá í upphafi kjörtímabils og verður að mínu mati ekki hjá því komist að mynda meirihluta og einungis spurning hversu margir flokkar koma að honum. Meirihlutinn hefur þannig með höndum verkstjórn í bæjarráði og bæjarstjórn og starfar náið með bæjarstjóra. Ég myndi hins vegar vilja sjá að allir bæjarfulltrúar tækju virkari þátt í nefndum bæjarins en verið hefur á yfirstandandi kjörtímabili. Sem dæmi má nefna að ein stærsta og mikilvægasta nefnd bæjarins, skólanefnd, hefur verið án bæjarfulltrúa á kjörtímabilinu. Þetta tel ég ekki gott og vil sjá að í öllum nefndum sé a.m.k. einn bæjarfulltrúi og eftir atvikum tveir þ.e. einn frá meirihluta og annar frá minnihluta.
Samvinna allir með
Það hvílir mikil ábyrgð á þeim sem ná hreinum meirihluta í kosningum og tel ég að L-listinn hafi ekki valdið þeirri ábyrgð að fullu. Ég tel m.a. að skort hafi á samræðu um stefnu bæjarins líkt og á sér stað þegar fleiri en einn flokkur koma að meirihluta. Þá tel ég að L-listinn hafi færst of mikið í fang með að ætla að stýra öllum nefndum og stjórnum á vegum bæjarins og ekki haft þann mannauð sem til þurfti. Það kann að vera að mikið álag sé skýring á hvers vegna allir bæjarfulltrúar L-listans láta nú af störfum, fyrir utan einn sem er í fjórða sæti nýja L-listans.
Af þessu þurfum við að læra og tel ég að við ættum að horfa til mun meiri samvinnu en verið hefur nokkru sinni í bæjarstjórn Akureyrar. Ég tel að við ættum að deila formennsku í nefndum milli allra flokka í bæjarstjórn þótt meirihlutinn hafi áfram meirihluta í nefndum. Jafnvel mætti ganga enn lengra með því að gera alla bæjarfulltrúa að formönnum nefnda og stjórna á vegum bæjarins. Það kann hins vegar að vera flóknara í útfærslu. Með þessu tel ég að samræða og samvinna í bæjarstjórn verði betri, samfélaginu til hagsbóta og við náum að virkja betur allt það góða fólk sem nær kjörí í komandi kosningum. Saman munum við takast á við verkefnið: Að gera góðan bæ betri.
Guðmundur Baldvin lGupðmundsson.
Guðmundur leiðir framboðslista Framsóknarflokksins á Akureyri