Á hluthafafundi í Greiðri leið ehf. sem haldinn var á Akureyri í dag, var samþykkt heimild til stjórnar félagsins um að mega hækka hlutafé félagsins um allt að 200 milljónir króna að nafnverði með innborgun á nýju hlutafé á genginu 1, eða upp í allt að 400 milljónir króna. Hækkunin komi til viðbótar heimild sem samþykkt var á hluthafafundi í félaginu þann 30. júní 2011. Fáist ekki áskrift að allri aukningunni frá hluthöfum heimilar fundurinn stjórninni að selja það hlutafé, sem ekki fæst áskrift að, til nýrra hluthafa og falla núverandi hluthafar frá forkaupsrétti að þeim hlutum. Gengi á því hlutafé sem selt verður til nýrra hluthafa verði ákveðið af stjórn. Heimildin gildi til 30. júní 2017.
Í greinargerð með tillögunni segir að stjórn félagsins telji rétt að vera undir það búin að mæta fjárþörf sem myndast vegna hlutdeildarfélagsins Vaðlaheiðarganga hf. Undirbúningur framkvæmda er í fullum gangi og fyrirsjáanlegt að auka þarf hlutafé í Vaðlaheiðargögnum hf. Ef núverandi hluthafar ná ekki að fjármagna fyrirhugaða aukningu þarf að leita til nýrra hluthafa og styrkja þannig um leið kjölfestu félagsins. Núverandi hluthafar þurfa þess vegna að samþykkja að falla frá forkaupsrétti sínum að þeim hluta aukningarinnar sem um er getið í tillögunni og ætlaður verður til sölu til nýrra hluthafa. Ekki stendur til að innkalla hlutafé í Greiðri leið ehf. strax, þar sem ekki er þörf á aukningu eiginfjár í Vaðlaheiðargöngum hf. fyrr en lán ríkisins verður endurfjármagnað á markaði. Á þeim tíma liggi auk þess fyrir að rekstrarhæfi félagsins til langs tíma verði tryggt, segir ennfremur í greinargerðinni.
Greið leið á 49% hlut í Vaðlaheiðargöngum hf. en Vegagerðin 51%.