Samþykkt að breyta deiliskipulagi vegna nýrra heilsugæslustöðva á Akureyri

Tjaldsvæðið við Þórunnarstræti. Hér er stefnt á að reisa heilsugæslustöð.
Tjaldsvæðið við Þórunnarstræti. Hér er stefnt á að reisa heilsugæslustöð.

Skipulagsráð Akureyrarbæjar hefur samþykkt að fela sviðsstjóra skipulagssviðs að setja í gang vinnu við breytingu á aðal- og deiliskipulagi tjaldsvæðisreits við Þórunnarstræti og að vinnu við breytingu á deiliskipulagi sem nær til Skarðshlíðar 20 verði flýtt. Þessar tvær staðsetningar þykja fýsilegustu kostirnir fyrir væntanlegar heilsugæslustöðvar á Akureyri.

Allt frá haustinu 2018 hefur verið í gangi samráð bæjaryfirvalda við Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á nýjum heilsugæslustöðvum á Akureyri. Samkvæmt þarfagreiningu HSN er þörf á að byggja tvær heilsugæslustöðvar þar sem miðað er við að byggja eina stöð sem þjóna á norðurhluta bæjarins og aðra til að þjóna suðurhlutanum. Markmiðið er bæði að bæta aðstöðu starfsmanna heilsugæslunnar sem og aðgengi íbúa á svæðinu að heilsugæsluþjónustu.

Í Skarðshlíð 20 er um að ræða 6.129 fm óbyggða lóð þar sem gildandi deiliskipulag gerir ráð fyrir að heimilt sé að byggja tvö fjölbýlishús, fjögurra og fimm hæða, sem samtals geta verið allt að 6.742 fm að stærð með bílakjallara fyrir 46-60 íbúðir.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi er gert er ráð fyrir að sú starfsemi tjaldsvæðis við Þórunnarstræti hætti eftir sumarið 2020. Í aðalskipulagi er svæðið skilgreint sem íbúðarsvæði/þróunarsvæði.          

 


Athugasemdir

Nýjast