Samþætting skóla- og frístundastarfs að hefjast í Norðurþingi

Borgarhólsskóli á Húsavík.
Borgarhólsskóli á Húsavík.

Fjölskylduráð Norðurþings ákvað sl. vor að hefja vinnu við undirbúning samþættingar skóla- og frístundastarfs hjá börnum á aldrinum 4-10 ára. Greint er frá þessu á vef Norðurþings. Þar segir að helstu markmið samþættingarinnar séu að:

  • gera skólastarf barna á 4. og 5. ári í leikskóla og 1. til 4. bekk grunnskóla samþætt við íþróttir og tómstundir.
  • samfella verði í dagskrá barna á þessum aldri og dagskránni sé lokið kl. 16
  • stuðla að auknum samvistum fjölskyldna
  • auka þátttöku barna í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi í sveitarfélaginu.

Samið var við KPMG um verkstjórn og starfshópur myndaður sem samanstóð af fulltrúm frá Borgarhólsskóla/Frístund, Grænuvöllum, Völsungi og Norðurþingi.

Samþættingin felur í sér að íþróttaæfingar barna á þessum aldri verði hluti af starfsemi annars vegar leikskóla og hins vegar Frístundar. Til að byrja með verða í boði þær íþróttagreinar sem í boði hafa verið hjá Völsungi.

Þjálfarar frá Völsungi munu sjá um æfingarnar en njóta aðstoðar starfsfólks Grænuvalla og Frístundar. Auk þess munu nemendur unglingastigs Borgarhólsskóla verða þjálfurum til aðstoðar sem hluta af valgreinum í skólanum.

Kynningar á verkefninu standa nú yfir og verður verkefnið kynnt foreldrum sérstaklega á foreldrarfundum Borgarhólsskóla og Grænuvalla. Stefnt er að því að verkefnið hefjist mánudaginn 26. september og verði starfrækt til reynslu til skólaloka í vor. 

Nánari kynningu má nálgast með því að smella HÉR


Athugasemdir

Nýjast