Samþætta skóla- og frístundastarf á Húsavík

Borgarhólsskóli á Húsavík
Borgarhólsskóli á Húsavík

Síðustu mánuði hefur Norðurþing unnið að samþættingu skóla- og frístundarstarfs barna á Húsavík. KPMG hefur séð um verkefnastjórn og utanumhald verksins sem snertir leikskóla, grunnskóla, frístund og íþrótta-og tómstundafélög á Húsavík.

Fjölskylduráð hefur fjallað um málið á fundum sínum í vetur. Nú er búið að skila lokaskýrslu um verkefnið og mun innleiðingarferlið hefjast strax vorið 2022. Skýrsla um verkefnið er nú aðgengileg á vef Norðurþings.

Aldey Unnar Traustadóttir, varaformaður fjölskylduráðs segir að verkefnið snúist í megin atriðum um að frístunda-, skóla,- og íþróttastarf hjá börnum í 1.-4. bekk grunnskóla sé lokið fyrir kl. 16 á daginn. Markmiðið sé þannig að stuðla að auknum samvistum fjölskyldna og til þess að auka þátttöku barna í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi í sveitarfélaginu.

„Þetta snýst um að búa til einhverja sameiginlega stundaskrá og jafnframt að börn á þessum aldri séu ekki beint að æfa eina sérstaka íþrótt heldur taki fjölbreyttari íþróttir í törnum. Þetta er allt gert í samtarfi við Völsung,“ segir Aldey.

„Í staðin fyrir að börnin séu að æfa tvær og kannski þrjár íþróttagreinar og séu svo alltaf að skipta eins og oft vill verða. Þá bjóðum við upp á námskeið í sem flestum greinum. Þannig geti börnin kynnst öllum greinum áður en þau velja sér farveg til framtíðar,“ segir hún jafnframt og lýsir ánægju sinni með að verkefnið sé komið á framkvæmdastig.


Athugasemdir

Nýjast