Um 40 manns eru að mótmæla á Ráðhústorgi á Akureyri þessa stundina, til að sýna mótmælendum á Austurvelli samstöðu. Að sögn lögreglu kom fólk á Ráðhústorg upp úr kl. 21.00 en þar hefur ekki komið til neinna átaka. Kveikt hefur verið í vörubrettum og þá er fólk með ýmis tæki og tól til að skapa hávaða og gera vart við sig.
Lögreglan fylgist með framgangi mála í lögreglubíl við torgið en hefur ekki haft afskipti af mótmælendum að öðru leyti en því að fá þá til að takmarka þann fjölda vörubretta sem kveikt er í í einu. Mótmælin eru friðsamleg en hávaðasöm og er nokkur hiti í fókli líkt og er í fólki á Austurvelli í Reykjavík. Umferð er nokkur um miðbæinn og virðist talsverður fjöldi bæjarbúa hafa farið á "rúntinn" til að skoða mótmælin.
(Frétt uppfærð kl 23:15)